Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Navalny handtekinn enn á ný

24.09.2018 - 10:03
epa06240060 Russian opposition leader and anti-corruption blogger Alexei Navalny (C) stands prior to an administrative hearing, at he Simonovsky district court in Moscow, Russia, 02 October 2017. Navalny is charged with numerous violating legislation on
Alexei Navalny í réttarsal í Moskvu í dag.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var handtekinn í morgun augnabliki eftir að hann var látinn laus eftir að hafa afplánað 30 daga fangelsisdóm.

Lögfræðingur Navalnys setti skilaboð inn á Twitter í morgun um að Navalny hefði verið handtekinn fyrir utan fangelsið nokkrum andartökum eftir að hann var látinn laus. Hann hafi þegar verið fluttur á lögreglustöð í miðborg Moskvu. 

Navalny var dæmdur til 30 daga fangelsisvistar fyrir mánuði fyrir að hafa skipulagt ólögleg mótmæli í janúar síðastliðnum. Sjálfur segir hann að honum hafi verið stungið inn til þess að koma í veg fyrir að hann gæti verið viðstaddur mótmæli sem hann hafði boðað til í september til þess að mótmæla áætlunum stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldur í Rússlandi. Þúsundir Rússar tóku þátt í þeim mótmælum um allt Rússland og lögregla handtók um 150 mótmælendur.

Navalny hefur verið óþreytandi við að gagnrýna breytingar á eftirlaunalögunum. Gagnrýnin hefur fætt af sér sjaldséða reiði almennings í Rússlandi og leitt til þess að dregið hefur úr vinsældum Pútíns að undanförnu.

Navalny hefur verið einn skæðasti andstæðingur Pútíns á síðustu árum og skipulagt fjölsótta mótmælafundi víða um land. Hann var fangelsaður í mánuð í byrjun sumars fyrir að hafa skipulagt mótmæli í kringum embættistöku Pútíns í maí. Honum var sleppt úr haldi daginn áður en heimsmeistarakeppnin í fótbolta hófst í Rússlandi.

Navalny var meinað að bjóða sig fram í forsetakosningunum fyrr á þessu ári, vegna dóms sem hann hafði hlotið fyrir fjármálamisferli. Mannréttindadómstóllinn hafði úrskurðað þau réttarhöld ógild.