Naut verða ófrjó og blómleg sveit að helvíti á Jörð

29.12.2019 - 05:39
In this image made from video taken Dec. 21, 2019, a man sprays water on a fire in Lithgow, New South Wales state, Australia.  Australian Prime Minister Scott Morrison on Sunday apologized for taking a family vacation in Hawaii as deadly bushfires raged across several states, destroying homes and claiming the lives of two volunteer firefighters.(Australian Broadcasting Corporation via AP)
Maður bleytir í trjám í Nýja Suður Wales, í veikri von um að forða þeim frá eldinum Mynd: AP
Miklir og langvarandi hitar í Nýju Suður Wales eru farnir að valda ófrjósemi og náttúruleysi í búsmala og neyða fjölda bænda til að bregða búi. Hver hitabylgjan af annarri hefur riðið yfir Ástralíu að undanförnu og ein slík gerir Áströlum lífið leitt einmitt þessa dagana. Og hitinn leggst ekki aðeins þungt á mannfólkið, heldur plagar hann líka skepnurnar, stórar sem smáar.

Í Nýja Suður Wales, þar sem yfir 30.000 ferkílómetrar gróðurlendis hafa brunnið og þúsundir kóalabjarna drepist veldur hitinn því að búsmali er víða hættur að fjölga sér. Þetta skrifar dýralæknirinn Gundi Rhoades í aðsendri grein í Sydney Morning Herald.

„Tarfarnir í Inverell geta ekki fjölgað sér. Þeir verða ófrjóir vegna þess að eistu þeirra ofhitna. Hryssur verða ekki fylfullar. Og gyltur og kýr missa fóstur í hitanum," skrifar Rhoades. Hún segir að vinna hennar felist ekki í því lengur að kanna frjósemi tudda eða hversu margar kýr séu með kálfi, því bændur hafi neyðst til að losa sig við búpeninginn og margir sjái ekki fram á annað en gjaldþrot.

Nú vinni hún helst að því að að meðhöndla skepnur sem þjást í hitunum en bændurnir geti ekki hugsað sér að fella eða selja, af tilfinningalegum ástæðum.

Blómlegur bær orðinn helvíti á Jörð

Yfir 100 skógareldar hafa geisað í Nýja Suður Wales síðustu vikur og loga margir enn. Rhoades, sem býr í bænum Inverell, segir frá því að nú blasi við henni auð beitarhólf, uppþornuð vatnsból og skraufþurr sina - sviðin jörð, hvert sem litið er.

„Í 22 ár hef ég verið dýralæknir í þessum eitt sinn blómlega bæ norðarlega í Nýja Suður Wales, sem er nú orðinn að helvíti á jörðu, þegar loftslagsbreytingar halda áfram að ýta undir gríðarlegan hita, þurrk og gróðurelda."

Öfgarnar miklar í veðurfarinu

Og öfgarnar eru líka í hina áttina, skrifar Rhoades, og rifjar upp að fyrr í haust féll 80 millimetra úrkoma á 20 mínútum. „Þessar dembur eru eins og regnsprengjur. Þær eru svo ofboðslegar að bóndi hér á svæðinu missti allar girðingar sínar, og það eina sem regnið gerði var að fylla vatnsstífluna hans af eðju, svo hann þurfti að nota gröfu til að tæma hana."

Á mörgum bújörðum er ekki stingandi strá að sjá lengur, skrifar Rhoades, því óvenju sterkir vindar hafi feykt skraufaþurri gróðurmoldinni út í buskann þetta vorið og sumarið. Allur bærinn er rjúkandi rúst og sveitin umhverfis líka, skrifar dýralæknirinn Rhoades í ákalli til stjórnvalda um að kynna sér ástandið almennilega þar sem það er verst, og grípa til aðgerða sem að gagni koma - í stað þess að samþykkja bara næstu kolanámu eins og ekkert sé sjálfsagðara. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi