Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nauðsynlegt að líta á gamansömu hliðarnar

Mynd:  / 

Nauðsynlegt að líta á gamansömu hliðarnar

28.11.2018 - 13:21

Höfundar

Sigursteinn Másson rekur persónulega sögu andlegra veikinda í nýrri bók, Geðveikt með köflum. Þar fjallar hann um atvik þar sem hann var langt leiddur af ranghugmyndum og fór fram á það við Davíð Oddsson að hann fengi far úr landi með einkaþotu gegn því að láta af umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.

Sigursteinn ákvað að skrifa bókina þegar hann rakst á gömul skrif ofan í skúffu hjá sér, dagbækur sem hann hafði haldið þegar hann var á geðdeildum. „Þegar ég fór að skoða það bæði rifjaðist ýmislegt upp og líka hvað ég hafði verið klikkaður á þeim tímabilum og það var pínu erfitt að fara í gegnum það,“ segir hann í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Sigursteinn veiktist fyrst haustið 1996. Hann segir að geðhvörf birtist með mismunandi hætti hjá fólki en í hans tilviki hafi þau verið álagstengd. Um það leyti sem hann missti tökin vann hann að gerð heimildarmyndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. „Á ákveðnum tímapunkti þar fara hlutir að gerast, það lokast á okkur ýmsar dyr og rannsóknin tekur nýja mynd,“ segir Sigursteinn. „Við það missi ég fótana, ég er orðinn svefnlaus, spenntur yfir þessu öllu saman, ég missi vinnuna á Stöð 2 þannig að öryggistilfinningin sem fylgdi því að vera Íslendingur og búa í réttarríki var allt í einu farin. Ég fékk sterklega á tilfinninguna að það væri verið að veita mér eftirför og fékk síðan staðfestingu á því. Það var það sem að felldi mig þá.“ Sigursteinn réð sér lífverði og lýsir tilverunni á þessum tíma eins og hann hafi verið staddur í spennumynd.

Í bókinni segir hann frá því þegar hann bankaði á dyr Stjórnarráðsins og fékk fund með Davíð Oddssyni, sem þá var forsætisráðherra. „Ég hafði verið svefnlaus dálítið lengi og búinn að vera á flótta með lífverðinum hingað og þangað.“ Á fundinum sagði hann við Davíð að hann myndi hætta umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið gegn því að Davíð kæmi honum úr landi með einkaþotu og að hann fengi greitt fyrir uppihald í því landi sem hann myndi finna sér dvalarstað. Þarna var Sigursteinn mjög veikur og haldinn mikilli vænisýki. „Davíð sér það auðvitað strax og spyr hvort ég hefði talað við lækni. Hann brást hárrétt við við þessar aðstæður og ég kann honum þakkir fyrir það.“

Sigursteinn segir að það megi sjá gamansamar hliðar á málinu. „Eftir á er þetta mjög fyndið. Ég vona að mér hafi tekist að koma því á framfæri í þessari sögu að þetta er líka mjög fyndið – á köflum bráðfyndið. Það er nauðsynlegt að horfa á það til að komast í gegnum þetta. Húmorinn er náttúrulega líka svo heilandi.“