Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nauðsynlegt að breyta framkomu gagnvart stúlkum

06.03.2020 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: un women
Þrátt fyrir að fleiri stúlkur stundi nám en nokkru sinni fyrr hefur það skilað litlu í að skapa jafnara og ofbeldisminna umhverfi fyrir konur. Tæplega níutíu prósent ala með sér einhverja kynbundna fordóma í garð kvenna.

Í nýrri stöðuskýrslu UNICEF, Plan International og UN Women kemur fram að ofbeldi gegn konum og stúlkum sé enn ekki aðeins algengt, heldur samþykkt, þrátt fyrir miklar framfarir í menntamálum. Á heimsvísu hefur stúlkum sem ekki ganga í skóla fækkað um 79 milljónir á síðustu tveimur áratugum og þá eru stúlkur nú líklegri til framhaldsnáms en strákar. Aðgengi að menntun sé hins vegar ekki nóg, heldur verði að breyta framkomu og hegðun fólks gagnvart stúlkum. Í skýrslunni kemur fram að konur séu sjötíu prósent allra mansals-þolenda og að ein af hverjum tuttugu stúlkum á aldrinum 15-19 ára hefur verið nauðgað. 

Um tólf milljónir stúlkna eru á hverju ári þvingaðar í hjónaband og fjórar milljónir standa frammi fyrir hættunni á kynfæralimlestingu. Hátt í ein milljón 10-19 ára stúlkna eru HIV-smitaðar í dag samanborið við 740 þúsund árið 1995. 

Í könnun Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í gær, kemur fram að tæplega níutíu prósent fólks í heiminum, af öllum kynjum, ali með sér einhverja kynbundna fordóma í garð kvenna. Hvergi voru fordómarnir meiri en í Pakistan, þar sem 99,8 prósent aðspurðra samsinntu einni eða fleiri fullyrðingum um yfirburði karla gagnvart konum. Skást er ástandið í smáríkinu Andorra, á landamærum Spánar og Frakklands, þar sem 27 prósent telja að karlmenn séu konum fremri.