Nauðgun skekur Japan

Mynd: EPA-EFE / EPA
Blaðakonan Shiori Ito vaknaði nakin á hótelherbergi og ákvað að kæra manninn. Umræða um kynferðislegt ofbeldi er tabú í Japan og málið hefur klofið þjóðina. Japan er eitt þróaðasta ríki veraldar en óvíða er kynjamisrétti meira.

Kvöldið örlagaríka fór blaðakonan unga á veitingahús í Tokyo, höfuðborg Japans, með þekktum blaðamanni og yfirmanni sínum, Noriyuki Yamaguchi. Sá hafði tekið viðtöl við helstu ráðamenn þjóðarinnar og ritað ævisögu Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Blaðakonan var í atvinnuleit og Yamaguchi vildi ræða möguleika hennar yfir kvöldverði. Fljótlega hvarf kvöldið í þoku. Þetta var 3. apríl 2015. 

Japanska þjóðin klofin í afstöðu sinni

Þegar hún opnaði augun var Yamaguchi ofan á henni, nakinn. Sjálf var hún á evuklæðunum einum. Hún fékk hann loks til að hætta til að komast á klósettið. Maðurinn sem átti að hjálpa henni að fá vinnu, hafði misnotað hana á hótelherbergi. Hún vissi ekki hvernig hún komst þangað eða hvað gerðist en her lögfræðinga hefur reynt að finna út úr því síðustu fjögur árin. Og Japanska þjóðin hefur verið klofin í afstöðu sinni.

Kynjajamisrétti óvíða meira en í Japan 

Japan er eitt þróaðasta þjóðfélag veraldar, næst á eftir Bandaríkjunum og Kína í þjóðarframleiðslu. Menntunarstigið er það hæsta í veröldinni, helmingur þjóðarinnar er með háskólamenntun. Japan er yfirleitt við toppinn á flestum mælikvörðum, nema þegar kemur að lista Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti. Þar er Japan númer 110 af hundrað fjörutíu og níu. Japan er fyrir neðan lönd eins og Ghana, Armeníu og Myanmar. 

Sérstakt dómskerfi í Japan

Shiori Ito ákvað að kæra Yamaguchi fyrir nauðgun og krefjast bóta. Það er eðlilegur framgangsmáti í flestum ríkjum heims en í Japan er það meiriháttar hneyksli. Dómskerfið í Japan er ansi sérstakt. Meira en 99 prósent allra sakamála enda með sakfellingu. Mál fara ekki til dómstóla, nema sakfelling sé nánast örugg. Því er sjaldnast til að dreifa í nauðgunarmálum. Orð stendur þar gegn orði. Vitni sjaldgæf og sönnunargögn fátíð. Nauðganir eru því sjaldan kærðar, innan við helmingur kærðra nauðgana fer fyrir dómstóla og enn færri enda með sakfellingu. Nauðgun telst aðeins nauðgun í Japan ef sannað þykir að ofbeldi hafi verið beitt. Fórnarlambið verður að sanna að það hafi reynt allt til að verja sig.

Málið fellt niður 

Shiori Ito vissi ekkert af þessu og segir í viðtali við Der Spiegel að hún hafi verið barnaleg, hún hafi trúað á réttarkerfið. Lögreglan tók sýni úr fötum þeirra, skoðaði myndir úr eftirlitsmyndavélum og ræddi við vitni. Í júní 2015 var gefin út handtökutilskipun. Sú tilskipun var fljótlega afturkölluð, málið flutt á aðra deild og rannsókn hafin á ný. Í júlí 2016, rúmu ári eftir að rannsókn hófst, ákvað saksóknari að fella málið niður, vegna skorts á sönnunargögnum. Málið þótti ekki líklegt til sakfellingar. Hún var ekki með mikla líkamlega áverka og ekki hægt að sanna að maðurinn hefði byrlað henni ólyfjan. Hann hélt því fram að hún hefði verið dauðadrukkin, ælt í leigubílnum en skammast sín síðar um nóttina og boðið fram kynlíf. Málið var því felt niður. Ito leið vítiskvalir og átti erfitt með að fá vinnu. Noriyuki Yamaguchi var í góðu sambandi við helstu ráðamenn og leitt hefur verið líkum að því að það hafi skipt máli þegar ákveðið var að fella málið niður.

Vildi breyta hugsanahætti og réttarkerfinu í Japan 

Shiori Ito ákvað að gefast ekki upp og höfðaði einkamál í maí 2017. Réttarkerfið virkaði ekki fyrir fórnarlömb kynferðisglæpa í Japan og því ætlaði hún að breyta. Hún krafðist jafnvirði tólf milljóna króna í bætur en fyrst og fremst vildi hún breyta hugsunarhætti og réttarkerfinu í Japan til hagsbóta fórnarlömbunum. Málið er einsdæmi í Japan. Kona hafði aldrei áður höfðað einkamál gegn meintum geranda í nauðgunarmáli. Og hún mætti mikilli andstöðu, hatri og hótunum, bæði frá konum og körlum. Vinir yfirgáfu hana, systir hennar neitar að láta sjá sig með henni opinberlega, hún fékk enga vinnu og flúði á endanum land. Hún býr nú í Lundúnum. Þegar réttarhöldin nálguðust bugaðist hún, sendi kveðjubréf á vini og vandamenn og gleypti heilt pilluglas af svefntöflum. Hún vaknaði upp á sjúkrahúsi, nær dauða en lífi. 

Ákvað að gefast ekki upp

En smám saman fjölgaði í stuðningshópi hennar, einkum konur sem hingað til höfðu borið harm sinn í hljóði. Stuðningurinn hleypti henni yfir síðasta hjallinn, hún ákvað að gefast ekki upp. Hún segist vissulega hafa ákveðið að klára málið fyrir sig sjálfa, en ekki síður fyrir aðrar konur í svipaðri stöðu. Hún vildi breyta stöðnuðu karlasamfélagi Japans. Á sama tíma vakti það þjóðarathygli þegar faðir var sýknaður af áralangri misnotkun. Samþykki hefði kannski ekki verið til staðar en ekki hefði verið sannað að barnið hefði reynt allt til að verja sig. Því hefði misnotkunin ekki verið nauðgun. Konur um allt land krefjast breytinga. Fórnarlömb eigi að fá meiri vernd og nauðgun sé nauðgun, þótt líkamlegir áverkar séu ekki fyrir hendi.

Réttlætið sigraði að lokum 

Rétt fyrir jól vann Shiori Ito tímamótasigur þegar henni voru dæmdar jafnvirði þriggja og hálfrar milljónar króna í bætur. Dómstóllinn hafnaði kröfu Noriyuki Yamaguchi sem hafði krafist jafnvirði hundrað og fimmtíu milljóna króna í bætur vegna falskra áskana. Þeirri kröfu var vísað frá dómi. Réttlætið sigraði að lokum, segir Shiori Ito. 

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn