Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Náttúruverndasinnar æfir yfir íslensku öli

08.01.2014 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Umhverfissamtökin WDC eða Whales and Dolphins Conservation eru bálreið út í brugghúsið Steðja fyrir ætla að framleiða bjór úr hvalmjöli. Bjórinn er unnin í nánu samstarfi við Hval ehf og verður í boði þegar þorrablót verða allsráðandi í íslenskum félagsheimilum.

Þetta kemur fram á vef Guardian í dag. Þar er haft eftir Vanessu Williams Grey, talsmanni WDC, að eftirspurn eftir hvalkjöti minnki ár frá ári og sífellt færri leggi sér slíkt kjöt til munns. „En þrátt fyrir það ætlar fyrirtæki að nota dauðan hval til að framleiða bjór - þetta er eins rangt og ósiðlegt og hugsast getur,“ segir Williams Grey í samtali við Guardian.

Williams Grey gefur lítið fyrir það þótt eingöngu eigi að brugga bjórinn til skamms tíma. „Hvað með hvalinn sem hefur þurft að gjalda fyrir það með lífi sínu og hefði getað orðið níutíu ára?“ Á það er bent á vef samtakanna að áður hafi það verið upplýst að hvalkjöt væri notað til að framleiða hundafóður. 

Á vef Guardian er rætt við Dagbjart Árelíusson, eiganda Steðja, sem segir að bjórinn verði eingöngu seldur á Íslandi og verði ekki fluttur út. Hann segir jafnframt að bjórinn sé bruggaður í tilefni af því að nú sé þorrinn að ganga í garð á Íslandi. Á vef Steðja kemur fram að hvalmjöl sé mjög próteinríkt og nánast engin fita sé í því.  „Það ásamt því að engin viðbættur sykur er notaður gerir þetta að mjög heilnæmum drykk og verða menn sannir víkingar af honum,“ segir á vef Steðja.