Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Náttúruspjöll til alþjóðadeildar lögreglu

07.06.2013 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsókn á umhverfisspjöllum í Mývatnssveit miðar vel og verður hún send til Alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra í næstu viku. Áletranir á náttúrumyndanir á Íslandi eru óheimilar og refsiverðar.

Viðurlög við náttúruáletrunum er fangelsi allt að tveimur árum og ef spjöllin eru sérstaklega alvarleg allt að fjórum árum. Sigurður Brynjúlfsson, hjá lögreglunni í Mývatnssveit, segir að ransóknin gangi vel. Verið sé að vinna ákveðin gögn og málið verði líklega sent til Alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra í næstu viku. Þýski myndlistarmaðurinn Julius von Bismarck, birti ljósmyndir af spjöllunum á sýningu sinni sem opnuð var í Berlin í apríl. Hann segir í tölvupósti til fréttastofu að hann hafi ekki tekið þátt í verknaðinum en að áletranirnar séu mjög lítil breyting á landslaginu. Breytingin kalli þó fram sterk viðbrögð, allir fjölmiðlar heillar þjóðar skrifi um að skemmdarverk hafi verið framin á náttúru hennar. Í raun sé einungis um sjónræna breytingu að ræða sem einungis fólk sjái. Ekkert dýr, planta eða bakteria láti sig varða um stafina nema þau sem fengu á sig málningu. Þetta mál snúist um menningu en ekki hraun.

„Skaðsemin er reyndar mest bara ásýndin en svo er þetta náttúrlega olíumálning sem, til dæmis þeir sem skrifa Lava spreya yfir klett sem er mikið af fléttum á og það drepur náttúrlega flétturnar,“ segir Bergþóra Kristjánsdóttir, starfsmaður Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit. „Venjulega vaxa fléttur um það bil einn millimetra á ári þannig að þetta er margra margra ára vöxtur sem var eyðilagður þarna á nokkrum sekúndum.“