Náttúran er falleg en getur verið óblíð

Mynd: Lögreglan á Suðurlandi / Facebook
Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, segir grjóthrun í Reynisfjöru ekki hafa komið á óvart. Skriður eru þekktar í fjörunni og hluti af eðlilegu náttúrulegu ferli, segir hann. Reynisfjara sé ekki heppilegur staður fyrir fólk og ferðamenn til að safnast saman. Hrunið hefði getað farið verr.

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þorsteinn sagði í Samfélaginu á Rás 1 að ströndin sé ein sú orkumesta á jörðinni. Hlíðin fyrir ofan verði svo óstöðug þegar hafaldan skelli á Reynisfjalli. Þarna séu kjöraðstæður fyrir grjóthrun. „Náttúran okkar er falleg en hún getur líka verið óblíð,“ segir Þorsteinn.

Hop jökla geti skapað hættu

Þorsteinn hefur meðal annars rannsakað skriður, berghlaup og ofanflóð í áratugi. Hann segir að jöklarnir séu að hörfa hratt. Í raun sé svokölluð afjöklun að eiga sér stað, nema á minni skala. Þegar jöklarnir hörfa standa eftir óstöðugar hlíðar, sem svo geta hrunið. Auk þess getur myndast hætta á skyndiflóðum, þegar jökullón eru annars vegar. Það eru hættuleg fyrirbæri, segir hann. Skyndiflóð í Steinsholtsjökli í Þórsmörk árið 1967 sé dæmi um það. 

Hlíð í Goðalandi á umtalsverðri hreyfingu

Við rannsóknir á svæði í Goðalandi, í innanverðri Þórsmörk kom í ljós að hlíð á staðnum hafði verið á hreyfingu síðan árið 1945, segir Þorsteinn. Hlíðin hafi færst um allt að tíu metra á ári. Frá 1945 hafi hún færst um 180 metra, eða um að meðal tali um einn sentimetra á dag. 

Nú hafi hópur frá Jarðvísindastofnun, með aðstoð Landhelgisgæslunnar, komið fyrir GPS-tæki á svæðinu og geti fylgst með því. Leitast sé eftir að sjá hvernig og hvenær hlíðin hreyfist og reyna að komast að orsakasamhenginu. Skriðan virðist vera að ýta Tungnakvíslarjökli, sem gengur út úr vestanverðum Mýrdalsjökli, til hliðar eða upp í mótstæða hlíð, segir hann. 

Það þarf að fylgjast betur með vinsælum ferðamannastöðum

Þorsteinn segir að það þurfi að fylgjast betur með vinsælum ferðamannastöðum. Miklar umhverfisbreytingar eigi sér nú stað. Það er að hlýna og úrkomumynstur að breytast, segir hann. Það verði að rannsaka þessi fyrirbæri og gera mikið átak í eftirliti. Þá þurfi aukið fjármagn í slíkar rannsóknir. Þetta skipti máli. 

Skriður féllu úr Reynisfjalli í gær og í dag

Grjót hrundi úr Reynisfjalli í Reynisfjöru í gær og í dag. Karlmaður og barn slösuðust við hrunið í gær. Lögregla hefur lokað austasta hluta fjörunnar. Sveinn Brynjólfsson hjá ofanflóðavakt Veðurstofunnar, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að verið væri að meta hvort fleiri sprungur væru á svæðinu sem gæti hrunið úr. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi