Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

NATO-fundi lokið eftir hvöss orðaskipti

Bandaríkjaforseti segir að ríki Atlantshafsbandalagsins ætli að stórauka framlög til varnarmála. Katrín Jakobsdóttir segir enga stefnubreytingu hafa átt sér stað. Ríkin virðast þó öll sammála um mikilvægi bandalagsins.

Seinni dagur leiðtogafundar NATO í Brussel fór af stað með því sniði sem gert hafði verið ráð fyrir, með samræðum við leiðtoga Georgíu og Úkraínu. En dagskráin riðlaðist hins vegar þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði kröfur sínar um aukin framlög annara aðildaríkja NATO til varnarmála og varaði við alvarlegum afleiðingum. 

Sigurreifur eftir fundinn

Bandaríkjaforseti hefur ekki sparað gagnrýnina á önnur NATO-ríki síðustu daga. Hún hefur aðallega snúið að því að það halli á Bandaríkin í fjárframlögum til varnarmála. Eftir fund leiðtoganna í morgun, sem skyndilega snérist upp í hálfgerðan krísufund, hélt Trump óvæntan blaðamannafund. Hann virtist glaður með niðurstöðu fundarins og sagði að nú yrðu framlög til varnarmála stóraukin og búið væri að jafna stöðu Bandaríkjanna í bandalaginu. Aðrir leiðtogar sem tjáðu sig eftir fundinn sögðu að tekin hefði verið ákvörðun, um að standa við markmiðið sem var samþykkt fyrir fjórum árum. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sleit fundinum formlega og sagði framgöngu Trumps hafa sett mark sitt á fundinn. 

Engin stefnubreyting í framlögum til varnarmála

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var með erindi á ráðstefnu sem haldin var samhliða leiðtogafundinum. Ásamt henni sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundinn fyrir Íslands hönd ásamt sendinefnd.

epa06882626 Iceland's Prime Minister Katrin Jakobsdottir arrives for the second day of a NATO summit in Brussels, Belgium, 12 July 2018. NATO countries' heads of states and governments gather in Brussels for a two-day meeting.  EPA-EFE/TATYANA
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Katrín Jakobsdóttir í Brussel

„Það má segja að það var mikil spenna í aðdraganda fundarins og miklar yfirlýsingar, auðvitað sérstaklega frá Bandaríkjaforseta um framlög til varnarmála. Hann hefur verið að gera þessa kröfu um að Evrópuríkin leggi meira af mörkum. Síðan var fundurinn í gær friðsamlegur, myndi ég segja, og töluvert friðsamlegri en margir áttu von á. En síðan kom til töluvert hvassra orðaskipta hér í morgun, þar sem framlögin voru aftur tekin á dagskrá,‘‘ sagði Katrín í samtali við fréttastofu. 

Framlög til varnarmála voru tekin upp aftur að kröfu Trumps sem virtist ekki sáttur við varlega orðaða yfirlýsingu aðildarríkjanna sem var samþykkt og gerð opinber í gær, þar á meðal um útgjöld til varnarmála. 

„Eins og staðan er núna, þá verður engin breyting á því. Það verður engin aukning þó að hér hafi verið varpað fram tölum eins og fjögur prósent, þá er engin ákvörðun um slíka breytingu tekin, enda kom það fram í máli flestra að flestar þjóðir eru að verja meiru til varnarmála. Þetta á hins vegar auðvitað ekki við um okkur Íslendinga, þar sem við auðvitað erum með þá sérstöðu að vera ekki með her og vera ekki að reka her eins og aðrar þær þjóðir sem sitja við þetta borð, ‘‘ sagði Katrín.

Algjör samstaða

Guðlaugur Þór sagði fundinn hafa verið fjörugan. „En það liggur fyrir að það er algjör samstaða meðal aðildarþjóða Atlantshafsbandalagins, bæði um mikilvægi bandalagsins og sömuleiðis þess að auka framlög til bandalagsins. Það hefur auðvitað verið gert umtalsvert frá Wales-fundinum og frá því aðgerðir Rússa voru á Krímskaga, og ég held að þetta sé stóra niðurstaðan,‘‘ sagði utanríkisráðherra