„Nánast eins og kjaftshögg“

Mynd: RÚV / RÚV

„Nánast eins og kjaftshögg“

07.05.2019 - 15:23

Höfundar

Leikritið Kæra Jelena fjallar um hóp nemenda sem heimsækir kennarann sinn á afmæli hennar. Þau virðast hafa í hyggju að koma henni skemmtilega á óvart en fljótt kemur í ljós að annað hangir á spýtunni. Valur Grettisson rithöfundur segir handritið hafa nánast slegið sig utanundir.

Sýningin Kæra Jelena eftir Ljúdmílu Razumovskaja í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur er í sýningu um þessar mundir í Borgarleikhúsinu. Verkið er frá árinu 1980 og fjallar um hóp nemenda sem kemur kennara sínum á óvart með því að heimsækja hana á afmæli hennar. Þetta er hálfgerð kveðjustund því nemendurnir eru allir að útskrifast úr menntaskóla og um það bil að stíga sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin. Fljótlega kemur þó í ljós að annað hangir á spýtunni og tilgangur heimsóknarinnar allt annar en að gleðja Jelenu. Leikarar sýningarinnar eru þau Halldóra Geirharðsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Haraldur Ari Stefánsson og Aron Már Ólafsson. Verkið var áður sett upp í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 30 árum, en þá voru Ingvar E. Sigurðsson og Baltasar Kormákur á meðal leikara og sýningin sló í gegn.

Valur Grettisson ritstjóri Reykjavík Grapevine, Ísak Hinriksson kvikmyndagerðarmaður og Sigþrúður Silju- Gunnarsdóttir ritstjóri á Forlaginu sáu Kæru Jelenu í Borgarleikhúsinu. Þau ræddu sýninguna við Bergstein Sigurðsson í Lestarklefanum.

Ógnin ekki jafn áþreifanleg

„Ég sá sýninguna 1991 í Þjóðleikhúsinu og það er ógleymanleg sýning. Ég finn enn tilfinninguna sem ég fylltist við að sjá þetta verk í fyrsta skipti. Það er auðvitað stórhættulegt að sjá leikrit aftur eftir svo sterkar minningar og mér fannst nýja sýningin ekki standast samanburð við þá gömlu,“ segir Sigþrúður. Hún segir Baltasar Kormák hafa á sínum tíma haldið sýningunni í heljargreipum og áhorfendum einnig en í þetta skipti hafi hún ekki fundið fyrir ógninni eins og þá.

Ísak Hinriksson segist alinn upp á miklu leikhúsheimili og þrátt fyrir að hafa ekki verið fæddur þegar sýningin var sett upp á sínum tíma hafi hann oft heyrt um hana talað. „Ég sá þessa sýningu reyndar í Verzlunarskólanum og eftir þá sýningu hugsaði ég að þetta væri besta framhaldsskólasýning sem ég hafði séð.  Þetta er gríðarlega sterkt og flott verk og þessi sýning höfðaði mjög vel til mín,“ segir Ísak.

Textinn bætir upp fyrir túlkun

Valur segir sýninguna hafa haft djúpstæð áhrif á sig. „Handritið er með því betra sem ég hef heyrt og séð lengi. Þetta var nánast eins og kjaftshögg.“ Hann segist þó sammála Sigþrúði að ógnina hafi að miklu leyti vantað. „Aron reynir að ná þessari þöglu ógn sem ég man eftir að hafi verið svo vel gert til dæmis í Afmælisveislunni eftir Pinter en hann nær aldrei utan um það. Það sama á við um Harald sem nær aldrei sannfærandi utan um karakterinn sinn. Þeir skila hlutverkinu ekki illa en þegar Aron er til dæmis að reyna að ná rólegri brjálsemi nær hann því aldrei alveg. Það breytir því ekki að textinn er svo góður að hann heldur öllu á floti. Það er sjaldan sem maður sér það góðan texta að það skiptir ekki máli þó menn séu ónákvæmir í túlkun, átökin eru alveg ofboðslega skýr og mér finnst þetta snjallar pælingar.“

„Mín kynslóð myndi ekki segja þetta“

Í uppsetningu Unnar Aspar er verkið heimfært yfir á nútímann að miklu leyti en krakkarnir eru með snjallsíma og að mörgu leyti nútímaleg. Sigþrúður segist hafa saknað sögulegrar víddar verksins. „Mér fannst það vanta við þennan lestur þar sem hún er færð á óræðan stað og tíma að sjá það gert bara almennilega. Mér fannst klæðnaðurinn á unga fólkinu til dæmis furðulegur. Ég er umkringd þessari kynslóð og búin að vera undanfarin ár með þrjár dætur á þessum aldri og mér fannst þetta alls ekki vera þúsaldarkynslóðin. Það var líka margt við textann sem er bundið þeim tíma sem verkið er skrifað og ég trúði ekki alveg þegar Jelena í túlkun Halldóru sem í þessari uppfærslu er jafnaldra mín segir: Mín kynslóð stendur fyrir heiðarleika og gildi. Það er orðið svolítið síðan við hættum að geta sagt þetta held ég og ég held ekki að neinn af minni kynslóð myndi segja þetta af sannfæringu.“

Ekki klappað eftir sýninguna

„Mér finnst leikaravalið í sýningunni mjög gott og allir einhvern veginn á réttum stað. Mér fannst Sigurður Þór sérstaklega ná algjörlega að njóta sín í þessari sýningu. Það var svolítið magnað á sýningunni í gær þá klappaði salurinn ekki. Það var mögnuð stund og geggjað að upplifa í leikhúsi að það þögðu allir og fengu svigrúm til að melta sýninguna,“ segir Ísak og bætir við að
sýningin tali svo sterkt til ungs fólks að réttast væri að skylda framhaldsskóla til að setja hana upp.

Ólíkar kynslóðir bregðast ólíkt við

Valur segist einnig hafa tekið eftir ósamræmi í tíma og tíðaranda í verkinu. „Kynslóðin sem um er fjallað þarna eru foreldrar okkar og foreldrar mínir sem fæddust um árið sextíu og ég elst upp síðan í þessu kapítalíska samfélagi sem fer á flug um 1990 með Davíð Oddssyni. Það er kynslóðin sem er að rífast við Jelenu, ekki mín kynslóð, ekki kynslóð Ísaks. Þegar ég horfði á verkið gat ég ekki haft það tímalaust. Ég var allan tímann með í huga að þarna væru foreldrar mínir að rífast við foreldra sína.“

Lestarklefinn er umræðuþáttur um menningu og listir sem sýndur er í beinni á menningarvef RÚV á hverjum föstudegi klukkan 17.03 og útvarpað á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Að lesa bók er einkaferðalag

Popptónlist

Þarf rapp meiri athygli?

Kvikmyndir

Leikgleði í augljóslega ódýrri framleiðslu

Myndlist

Ef það er á HönnunarMars, þá er það hönnun