Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Námsmenn fordæma niðurskurð LÍN

28.06.2013 - 21:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Námsmannahreyfingar Íslands fordæma þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í aðdraganda samþykktar á úthlutunarreglum LÍN. Krafa um 75% námsárangur setji aukna pressu á námsmenn sem gæti leitt til aukins brottfalls úr námi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu nemendafélaga skóla á framhaldsskóla- og háskólastigi er þess krafist að fallið verði frá fyrirætlunum um niðurskurð og að breytingar á úthlutunarreglum verði endurskoðaðar.

Ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunafélög nemenda og því hafi niðurskurðartillögur og ákvörðun stjórnar um breytingar komið stúdentum í opna skjöldu. Aðlögunartími vegna nýju reglnanna sé að sama skapi of stuttur. Vinnubrögðin séu ólíðandi og því verði ekki tekið þegjandi að svona verklag sé viðhaft hjá stjórn opinberrar lánastofnunar, segir í yfirlýsingunni.

Þá fordæma námsmannahreyfingarnar boðaðan niðurskurð LÍN, enda rýri hann enn kjör íslenskra námsmanna. Þá er gagnrýnt að með auknum kröfum um framvindu náms sé verið að fækka þeim nemendum sem hljóta lántökurétt. Með því sé sérstaklega vegið að barnafólki og einstaklingum með námsörðugleika.