Nálæg hverfi narta í hæla miðborgarinnar

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Miðborgin verður áfram dýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins þótt fasteignaverð í nálægum hverfum nálgist verðið þar. Þótt margar íbúðir í miðbænum standi auðar seljast þær á endanum, segir sérfræðingur í húsnæðismörkuðum.

Á fasteignamarkaði er gjarnan talað um svokallað miðborgarálag. Það er munurinn á fermetraverði í miðborg Reykjavíkur og öðrum hverfum höfuðborgarsvæðiðsins. Undanfarin ár hefur þetta álag verið um 20 prósent en samkvæmt nýjustu tölum er þetta álag að hverfa.

Mikil hækkun í nálægum hverfum

Árið 2017 var meðalverð í miðborginni 20 prósentum hærra en í nálægum hverfum. Það sem af er þessu hefur söluverð nýrra íbúða í miðborginni einungis verið 6 prósentum hærra en í nálægum hverfum. Ein skýring er sú að eftirspurn eftir íbúðum til skammtímaleigu eins og með Airbnb hefur minnkað. Þá kann neikvæð umræða um miðborgina, meðal annars í tengslum við framkvæmdir á Hverfisgötu að hafa áhrif.  „Við sjáum að það er mikið af nýjum íbúðum sem er verið að byggja í nágrenni hundrað og eins, eins og til dæmis á Hlíðarendasvæðinu, á Kirkjusandi og Vogahverfi. Þannig að þau hverfi eru að byggjast upp og það hefur náttúrulega áhrif á eldra húsnæði þar,“ segir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavik Economics.

Þetta sést ef þróunin í 10 dýrustu hverfunum, samkvæmt fermetraverði, er skoðuð. Nánast engin hlutfallsleg verðhækkun varð á fasteignum innan Hringbrautar og Snorrabrautar á meðan hlutfallsleg hækkun á Seltjarnarnesi var 17 prósent. Á sama tíma hækkaði fasteignaverð allnokkuð í nágrenni miðborgarinnar, svo sem í Fossvogi, Hlíðum og Teigum.

Tekur tíma að selja íbúðir

Þrátt fyrir efnahagssamdrátt sér Magnús Árni ekki fram á samdrátt á fasteignamarkaði. Bæði hafi vaxtalækkanir jákvæð áhrif og stórir árgangar séu að koma út á markaðinn í fyrsta sinn. Sá hópur er hins vegar ekki líklegur til að horfa til miðborgarinnar við fasteignakaup og því hefur verið velt upp hvort of geyst hafi verið farið í byggingu dýrra íbúða á svæðinu. Margar þessara íbúða standa auðar og þótt vissulega geti tekið tíma að koma þeim í sölu óttast Magnús Árni ekki að þær standi auðar til langframa.

 „Það er náttúrlega autt húsnæði núna en það mun líklega fara. „Þarna er stór vinnumarkaður, háskólasvæðið, uppbygging Landspítala og ýmislegt fleira sem tengist því að eftirspurn verður áfram til staðar.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi