Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nafni Akureyrar breytt

24.01.2019 - 18:14
default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Bæjarráð Akureyrar hefur lagt til að nafni sveitarfélagsins verði breytt úr Akureyrarkaupstaður í Akureyrarbær. Enda er það nafn almennt notað af bæjarbúum. Örnefnanefnd þarf að samþykkja nýtt nafn.

Umræða um þessa nafnabreytingu hefur staðið um nokkurn tíma í bæjarkerfinu. Á fundi bæjarráðs 1. nóvember var Höllu Margréti Tryggvadóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs, falið að vinna tillögu að málinu.

Á fundi bæjarráðs í morgun lagði Halla svo fram tillögu um breytingu á heiti sveitarfélagsins. Bæjarráð lagði í kjölfarið til að heitinu yrði breytt úr Akureyrarkaupstaður í Akureyrarbær. Tillögunni var vísað til umræðu og afgreiðslu bæjarstjórnar. Jafnframt fól bæjarráð Höllu Margréti að óska umsagnar örnefnanefndar um breytingatillöguna.

Nafnið Akureyrarbær er almennt notað í daglegu tali og skrifum og bæjarbúar og stjórnendur bæjarins tala sjaldan um Akureyrarkaupstað. Á heimasíðu bæjarins er yfirskriftin til dæmis Akureyrarbær, þar eru fréttir frá Akureyrarbæ o.s.frv. Orðið kaupstaður kemur þar hvergi fram, nema ef til vill af frásögnum af hinum forna kaupstað við Pollinn.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV