Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nafnabreyting rædd innan Samfylkingarinnar

17.08.2017 - 14:02
Þingsetning 2016
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nokkrir flokksmenn Samfylkingarinnar hafa sent forystu flokksins tillögu um að nafni flokksins verði breytt. Tillagan hefur vakið misjafnar undirtektir og sitt sýnist hverjum um ágæti þess. Formaður flokksins hefur ekki tekið afstöðu til hennar.

Samfylkingin var stofnuð árið 2000 þegar fjórir flokkar runnu saman - Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Þjóðvaki. Nafninu var svo breytt árið 2010 í Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands. Flokkurinn galt afhroð í síðustu alþingiskosningum og fékk aðeins fjóra þingmenn kjörna.

Eva H. Baldursdóttir varaborgarfulltrúi og formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna setti inn færslu á Facebook í dag þar segir að það sé til umræðu innan Samfylkingarinnar að breyta nafninu, og viðbragða óskað.

Þau hafa ekki látið á sér standa. Þeir sem eru hlynntir breytingu tala meðal annars um að það sé fráleitt að nota ekki orðið jafnaðarmaður í nafni flokksins. Nokkrir styðja þá hugmynd að taka hreinlega Samfylkinguna út úr nafninu þannig að flokkurinn heiti einungis Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Þeir sem gagnrýna tillöguna benda meðal annars á að dýrt sé að markaðssetja nýtt nafn, að það muni ekki breyta neinu um gengi flokksins og að þetta beri jafnvel vott um örvæntingu.

Allir geta komið með tillögur

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir að fyrir landsfundi hafi allir félagsmenn tækifæri til að koma með tillögur að lagabreytingu, en hún sé nauðsynleg til að breyta nafninu. Næsti landsfundur verður haldinn 27. október. „Þetta er tillaga sem kemur, eins og hún hefur verið kynnt, frá einstalkingum innan flokksins. Ef hún kemur inn með formlegum hætti sem lagabreyting verður hún rædd og afgreidd. Ég veit ekki hvort það hefur verið gert.“

Logi hefur sjálfur ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að breyta nafninu. „Mér finnst flestar hugmyndir skoðunarverðar. Ég mun eins og hver annars félagsmaður velta fyrir mér kostum og göllum við þessa hugmynd en ég hef ekki endanlega myndað mér skoðun á þessu.“

Ef af nafnabreytingu verður mun það þó engu breyta um stefnu flokksins. „Mitt hlutverk, eins og annarra sem eru í formlegri stöðu hjá flokknum, er fyrst og fremst að sinna erindi jafnaðarstefnunnar og Samfylkingarinnar og ég treysti mér til að gera það undir ýmsu heiti. Þó að knattspyrnulið skipti um búning breytir það ekki taktíkinni á vellinum.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sú hugmynd hefur verið rædd að breyta nafni Samfylkingarinnar. Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi varaformaður flokksins viðraði til að mynda þá skoðun í fyrra að flokkurinn ætti einungis að heita Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Rætt verður við Loga um þetta mál í Síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV