Næstlengsta kast Hilmars Arnar

Hilmar Örn Jónsson Íslandsmethafi í sleggjukasti. - Mynd: Mummi Lú / RÚV

Næstlengsta kast Hilmars Arnar

21.03.2020 - 19:28
Kastmót fór fram í Laugardalnum í dag, þrátt fyrir samkomubann enda auðsótt að stunda kastgreinar með nægri fjarlægð milli keppenda. Hilmar Örn Jónsson náði sínum næstbesta árangri frá upphafi.

Keppt var í kringlukasti og sleggjukasti karla á snævi þöktum kastvelli í dag. Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi í sleggjukasti, var meðal keppenda á mótinu. Mótið í dag telur til stiga inn á heimslista en heimslistinn telur fyrir þátttökurétt á Ólympíuleikana.

Nærri öll frjálsíþróttamót þar sem keppendur höfðu færi á að vinna sér þátttökurétt á leikana hafa verið slegin af og er þetta mót meðal annars haldið í þeim tilgangi að gefa Hilmari færi á því að reyna að ná Ólympíulágmarki. Lágmarkið fyrir leikana í sumar eru 77,50 metrar.

„Þetta gekk bara mjög vel, annað lengsta kast á ferlinum, 74,16. Það lofar mjög góðu. Þetta eru kannski ekki fyrirmyndaraðstæður hérna í dag, það er soldið kalt og snjór þannig að ég er alveg vongóður að ná Ólympíulágmarkinu á þessu ári,“ sagði Hilmar Örn.

Köst hans frá í dag og viðtal við hann má sjá í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Hilmar Örn í sögubækurnar

Frjálsar

Hilmar Örn sló Íslandsmet í sleggjukasti