Nærri helmingur óákveðinn

28.09.2016 - 06:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðeins rétt rúmur helmingur aðspurðra tók afstöðu í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis um fylgi stjórnmálaflokkanna sem gerð var á mánudagskvöld. Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur í könnuninni með 34,6 prósenta fylgi. Píratar fylgja þar á eftir með tæp 20 prósent og þá Vinstri græn og Framsókn með tæp 13 prósent.

51,5 prósent þeirra 800 sem svöruðu könnuninni tóku afstöðu til spurninga könnunarinnar. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekkert svar fékkst við því var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef viðmælandi gat ekki heldur svarað því var enn fremur spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?

Verði niðurstöður Alþingiskosninga í lok október í samræmi við könnunina heldur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar velli með 33 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 24 þingmenn og Framsóknarflokkurinn níu. Píratar yrðu 13 á þingi, Vinstri græn átta, fimm frá Viðreisn, sem mælist með ríflega sjö prósenta fylgi, og Samfylkingin næði fjórum inn með tæplega sex prósenta fylgi á bak við sig. Björt framtíð mælist með 3,6 prósenta fylgi, Íslenska þjóðfylkingin 1,5 prósent en aðrir flokkar mælast undir eins prósents fylgi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi