Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nærri 300 handteknir vegna svikapósta

11.09.2019 - 01:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nærri 300 voru handteknir í sameiginlegri aðgerð nígerískra og bandarískra yfirvalda gegn netsvindlurum. Handtökurnar voru uppskera margra mánaða rannsóknarvinnu.

Svindlararnir sendu tölvupóst í nafni yfirmanns til starfsmanns sem hafði aðgang að fjármálum viðkomandi fyrirtækis og reyndi að svíkja út pening. Alls telja dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum að svindlarar sem beiti þessari aðferð hafi samanlagt náð að svíkja út yfir milljarð dollara í fyrra.

Sameiginlegri aðgerð Bandaríkjanna og Nígeríu var beint gegn afkastamestu tölvuþrjótahópunum að sögn Ahamdi Uche, sérfræðingi bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Alls voru 167 handteknir í Nígeríu, 74 í Bandaríkjunum, 18 í Tyrklandi og 15 í Gana. Einhverjir voru einnig hnepptir í varðhald í Frakklandi, Ítalíu, Japan, Malasíu, Bretlandi og Kenía, alls 281 grunaður svindlari. Lögregla lagði einnig hald á um 3,7 milljónir dala.

Christopher Wray, stjórnandi FBI, kom þeim skilaboðum til annarra svindlara að þessi aðgerð sýni þeim að yfirvöld hætti aldrei leitinni að þeim, sama hvar í heiminum þeir halda sig.