Nær allir læknar á Reykjalundi hafa sagt upp

31.10.2019 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - Samsett mynd/RÚV
Níu læknar á Reykjalundi hafa sagt upp störfum síðan í haust og einn var rekinn. Þar af eru fimm yfirlæknar. Þrír læknar, auk framkvæmdastjóra lækninga, hafa ekki sagt upp störfum. Einungis einn yfirlæknir hefur ekki sagt upp.

Uppsagnir lækna á Reykjalundi halda áfram. Síðan stjórn SÍBS, sem rekur Reykjalund, kynnti nýtt skipurit í sumar hafa níu læknar sagt upp störfum, og einn var rekinn. Einungis þrír læknar á stofnuninni hafa ekki sagt upp störfum, fjórir með nýráðnum framkvæmdastjóra lækninga, Ólafi Ævarssyni.

Þeir sem hafa sagt upp eru fimm yfirlæknar, á taugasviði, Miðgarði, greiningarsviði, geðheilsusviði og hjartateymi. Hinir fjórir eru læknar með sérþekkingu á endurhæfingu, geðheilbrigði, gigt og offitu. Allir læknarnir eru enn starfandi og ætla að vinna uppsagnarfrestinn, að einum undanskildum. Einn læknir til viðbótar er að vinna sinn síðasta vinnudag á Reykjalundi í dag, en sú staða var tímabundin og það lá alltaf fyrir.  

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru haldnir nokkrir fundir á Reykjalundi í gær þar sem ástandið var rætt fram og til baka og starfsmenn létu óánægju sína í ljós. Ekki er búið að auglýsa neinar af stöðum þeirra lækna sem hafa sagt upp störfum. Hvorki Herdís Gunnarsdóttur, nýr forstjóri, né Ólafur Þór Ævarsson, nýr framkvæmdastjóra lækninga, hafa látið ná í sig í dag eða í gær.

Leiðrétt: Upphaflega stóð að Herdís og Ólafur hafi ekki látið ná í sig undanfarnar tvær vikur, en Herdís veitti RÚV viðtal á mánudag þar sem hún sagðist hafa áhyggjur af stöðunni. Ólafur hefur hins vegar ekki veitt viðtal. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi