Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nær 2.000 heimili fá mataraðstoð fyrir jólin

07.12.2017 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsfólk og sjálfboðaliðar hjálparsamtaka hafa í nógu að snúast þessa dagana þar sem jólaúthlutanir eru á næsta leiti. Mörg þúsund manns njóta góðs af matargjöfum fyrir jólin.

Um þúsund fjölskyldur hafa óskað eftir aðstoð fyrir jólin frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og um 600 frá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjavík. Fjölskylduhjálpin er einnig með starfsemi í Reykjanesbæ og ekki er ljóst hve margir sóttu um þar. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir það tilfinningu sína að efnalítið fólk hafi minna á milli handanna nú en áður. „Mér finnst fátæktin vera dýpri. Sumt af því fólki sem sækir um hjá okkur á hreinlega ekki neitt,“ segir hún. Öryrkjar sem eigi börn séu í sérstaklega slæmri stöðu. Meðal skjólstæðinga eru einnig eldri borgarar og fólk á vinnumarkaði með lægstu launin. Hún segir að fólk hafi byrjað að hringja í október til að spyrjast fyrir um jólaúthlutunina og að það hafi ekki gerst áður að þær fyrirspurnir berist svo snemma.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar matargjöfum til um þúsund heimila fyrir jólin. Pétur Gísli Finnbjörnsson, sjálfboðaliði, segir ekki enn ljóst hver heildarfjöldinn verði fyrir þessi jól. Líklega séu skjólstæðingarnir í ár örlítið færri en í fyrra. Dæmi eru um að fólk leiti aðeins til Mæðrastyrksnefndar fyrir jólin, meirihlutinn komi reglulega allt árið. „Almennt þá hefur umsækjendum um aðstoð fækkað lítillega. Þar hefur gott ástand á vinnumarkaði töluvert að segja,“ segir Pétur Gísli. Skjólstæðingum fjölgaði mikið í hruninu og næstu árin á eftir. Pétur Gísli segir að fyrst núna finni þau fyrir fækkun.

Jólaúthlutunin hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur verður á Korputorgi 20. desember. Fjölskylduhjálp Íslands verður með úthlutun fyrir einstaklinga í Iðufelli í Reykjavík 18. desember og fyrir fjölskyldur 20. desember. Úthlutun í Reykjanesbæ verður svo 22. desember. Þrátt fyrir að umsóknarfrestur um jólaúthlutun sé runninn út getur fólk enn hringt og skráð sig. Í jólaúthlutunum fær fólk allt sem til þarf í jólamatinn; kjöt, meðlæti, malt og appelsín, ís, rjóma, smjör, piparkökur og fleira. Á báðum stöðum eru einnig í boði jólatré og foreldrum stendur til boða að velja jólagjafir til að gefa börnum sínum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir