Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nær 1.400 dauðsföll staðfest

03.10.2018 - 05:39
epa07065384 Susanti, a tsunami survivor sits in the shade of a near a mass burial field where her husband was buried in Palu, central Sulawesi, Indonesia, 03 October 2018. According to reports, at least 1,234 people have died after a series of powerful
Nú þegar er búið að jarða nokkur hundruð fórnarlamba hamfaranna á Sulawesi í fjöldagröfum í hæðunum upp af strandbænum Palu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 1.400 dauðsföll af völdum hamfaranna á Sulawesi-eyju í Indónesíu á föstudag hafa nú verið staðfest og hundraða er enn saknað. Næstum fimm sólarhringar eru liðnir frá því að snarpur jarðskjálfti, 7,5 að stærð, reið yfir og framkallaði flóðbylgju í kjölfarið. Hvort um sig kostaði hundruð mannslífa og líkurnar á því að fleiri finnist á lífi í rústum hruninna bygginga fara ört dvínandi.

Yfirvöld í Indónesíu hafa tilkynnt að á föstudaginn, viku eftir að hamfarirnar dundu yfir, megi vart búast við því að fleiri finnist lífs.

Leitar- og björgunarlið einbeitir sér nú að nokkrum stöðum í strandbænum Palu, sem varð verst úti. Þar á meðal eru hótelið Roa-Roa, þar sem talið er að um 60 manns séu enn grafin undir húsarústunum, stór verslunarmiðstöð í borginni, vinsæll veitingastaður og stórt svæði þar sem jarðvegurinn breyttist skyndilega í leðju þegar skjálftinn reið yfir með þeim afleiðingum að jörðin bókstaflega gleypti allt að 1.700 byggingar með manni og mús áður en jarðvegurinn harðnaði á ný.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að um 200.000 manns, þar af tugir þúsunda barna, séu enn í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð, og að um 66.000 heimili hafi eyðilagst í skjálftanum og flóðbylgjunni sem hann orsakaði. Samtökin gagnrýna seinagang indónesískra stjórnvalda við björgunarstörfin og segja allt of hægt ganga að koma nauðsynjum á borð við vatn og mat til þeirra sem verst urðu úti.

Þá er enn lítið vitað um afleiðingar skjálftans í dreifbýlum héruðunum næst Palu, einkum Donggala, sem er norður af Palu og nær upptökum skjálftans. Þar búa um 300.000 manns og Jan Gelfand, talsmaður Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Indónesíu, segir fyrstu fréttir þaðan benda til þess að svæðið hafi orðið skelfilega illa úti í hamförunum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV