
Nær 1.400 dauðsföll staðfest
Yfirvöld í Indónesíu hafa tilkynnt að á föstudaginn, viku eftir að hamfarirnar dundu yfir, megi vart búast við því að fleiri finnist lífs.
Leitar- og björgunarlið einbeitir sér nú að nokkrum stöðum í strandbænum Palu, sem varð verst úti. Þar á meðal eru hótelið Roa-Roa, þar sem talið er að um 60 manns séu enn grafin undir húsarústunum, stór verslunarmiðstöð í borginni, vinsæll veitingastaður og stórt svæði þar sem jarðvegurinn breyttist skyndilega í leðju þegar skjálftinn reið yfir með þeim afleiðingum að jörðin bókstaflega gleypti allt að 1.700 byggingar með manni og mús áður en jarðvegurinn harðnaði á ný.
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að um 200.000 manns, þar af tugir þúsunda barna, séu enn í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð, og að um 66.000 heimili hafi eyðilagst í skjálftanum og flóðbylgjunni sem hann orsakaði. Samtökin gagnrýna seinagang indónesískra stjórnvalda við björgunarstörfin og segja allt of hægt ganga að koma nauðsynjum á borð við vatn og mat til þeirra sem verst urðu úti.
Þá er enn lítið vitað um afleiðingar skjálftans í dreifbýlum héruðunum næst Palu, einkum Donggala, sem er norður af Palu og nær upptökum skjálftans. Þar búa um 300.000 manns og Jan Gelfand, talsmaður Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Indónesíu, segir fyrstu fréttir þaðan benda til þess að svæðið hafi orðið skelfilega illa úti í hamförunum.