Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Náðu árekstri í Ljósavatnsskarði á myndband

25.11.2015 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Harður árekstur varð í Ljósavatnsskarði rétt eftir hádegi í gær þegar tveir fólksbílar skullu saman. Tveir ferðamenn voru í öðrum bílnum en ökumaðurinn var einn í hinum. Báðir bílar eru gjörónýtir og eldur kom upp í öðrum þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tók annar ferðamaðurinn áreksturinn, fyrir tilviljun, upp á myndband sem sýnir aðdragandann vel. Hann hafði hafið upptökuna í Víkurskarði, nokkrum mínútum áður en áreksturinn varð. Þegar ferðamennirnir urðu varir við að ekki væri allt með felldu hjá ökumanninum sem kom á móti, hægðu þeir á sér og náðu að stöðva áður en áreksturinn varð. Ökumaður hins bílsins missti stjórn á honum í hálku, fór yfir á hinn vegarhelminginn og ók framan á bíl ferðamannanna. Allt sést þetta á myndbandinu.

Komst út af sjálfsdáðum
Ökumaðurinn sem missti stjórn á bíl sínum komst út af sjálfsdáðum, en skömmu síðar kviknaði í bílnum. Sjúkraflutningamenn voru þá komnir af staðinn og kölluðu út slökkvilið. Fyrsti slökkviliðsbíllinn kom frá Stóru-Tjörnum, skammt frá slysstaðnum og síðar kom annar bíll frá Akureyri. Bíllinn er þó gjörónýtur og raunar hinn bíllinn líka, sem var bílaleigubíll.

Við áreksturinn fóru báðir bílar út af veginum og niður vegkant, sem er um fjögurra til fimm metra hár. Hvorugur bíllinn valt. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er fólkið ekki í lífshættu. Tveir eru með alvarlega áverka og annar þeirra er enn á gjörgæslu.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV