Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ná sáttum um stjórnarmenn lífeyrissjóðs

23.08.2019 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkomulag hefur náðst á milli VR, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og fráfarandi stjórnarmanna lífeyrissjóðsins sem tilnefndir voru af VR. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR. Deilan snerist um afturköllun fulltrúaráðs VR á umboði stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum.

VR vildi skipta stjórnarmönnunum út eftir að breytilegir vextir á verðtryggðum útlánum sjóðsins voru hækkaðir í byrjun sumars. Það taldi stjórn VR vera trúnaðarbrot við félagið, stefnu þess og þá ný gerðan lífskjarasamning. Fjármálaeftirlitið taldi afturköllun umboðs fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins ekki gilda því að fulltrúaráð VR hafi tekið ákvörðunina en þá ákvörðun hafi stjórn VR átt að taka. VR hafði stefnt Fjármálaeftirlitinu fyrir dóm vegna málsins. 

Þeir stjórnarmenn sem nú sitja í stjórninni í nafni VR láta af störfum og í stað þeirra taka nýir stjórnarmenn sæti samkvæmt ákvörðun VR frá 14. ágúst. Þá hefur dómsmálið gegn Fjármálaeftirlitinu verið fellt niður, að því er segir í tilkynningu VR

„VR fellst á sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins um að óæskilegt sé að þeir sem fara með vald til tilnefningar í stjórn sjóðsins hlutist til um ákvarðanir sjóðsstjórnar með því að skipta út stjórnarmönnum áður en kjörtímabili þeirra lýkur og vonar að slík inngrip heyri nú sögunni til,“ segir jafnframt í tilkynningu VR.