Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ná ekki endum saman í fullu fæðingarorlofi

16.01.2015 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Faðir tveggja ungra barna segir að fjölskyldan nái ekki endum saman, fullnýti hann rétt sinn til fæðingarorlofs. Hann segir að tekjuskerðingin í orlofinu sé of mikil.

„Það kostar of mikið til að missa alla þessa peninga, það er 20 prósent sem fer í hverjum mánuði það er bara aðeins of mikið,“ segir Klas Rask, starfsmaður hjá Slippnum á Akureyri.

Aðspurð hvað henni finnst um að Klas geti ekki tekið fullt orlof segir Ásrún Ýr Gestsdóttir: „Mér finnst það náttúrulega bara leiðinlegt. Hann getur ekki fengið jafnmikinn tíma með börnunum eins og maður hefði viljað.“

Ásrún og Klas eiga þriggja ára dóttur og eins árs gamlan son. Klas starfar sem járnsmiður og vélvirki hjá Slippnum á Akureyri. Hann tók einn mánuð í fæðingarorlof með dóttur sinni og tvo mánuði með syninum. Þau segja það ekki raunhæft fyrir fjölskylduna að ná endum saman ef Klas fullnýtti orlofsrétt sinn. Þau segja að margir í kringum þau séu í sömu stöðu.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá nýta feður fæðingarorlofsrétt sinn í minna mæli nú en fyrir hrun. Og samkvæmt tölum frá fæðingarorlofssjóði fækkar mest í hópi feðra sem eru með tekjur á bilinu 2 - 400 þúsund krónur á mánuði. Einstaklingur sem er með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun fær 90 þúsund krónum minna á mánuði á meðan að hann er í orlofi.