Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mýs herja á skólalóðina - myndband

10.11.2014 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Talsverður músagangur virðist vera á Egilsstöðum og er mikið rætt um músadráp á kaffistofum bæjarins.

Það er til marks um að mýsnar séu ekki bara ímyndun að Skarphéðinn Þórisson sem er lífrræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands heyrir músasögur þó hann hafi ekki séð mýs sjálfur. „Sonur minn kom heim og það beið mús á tröppunum. Einn fékk tvær mýs inn í bíl hjá sér og var í vandræðum að koma þeim út,“ segir Skarphéðinn.

Hann og fleiri líffræðingar sem fréttastofa hefur rætt við telja að gott tíðarfar í sumar og haust hafi kallað músaár yfir Héraðsbúa. Skarphéðinn segir að hér áður fyrr hafi verið talið að mikill og skyndilegur músagangur vissi á harðan vetur. Í miklum músaárum hafi skottpeningur gert bændum lífið leitt, farið inn í fjárhús og jafnvel lagst á fé. „Þær hreiðruðu um sig í baki kindanna,“ segir Skarphéðinn.

Jú, mýs hafa étið sig inn í kindur

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, staðfestir þetta. „Þær geta drepið fé og ég hef heyrt um þetta í nútíma; að þær hafi valdið stórskaða,“ segir Ester. Hún tekur reyndar fram að þá hafi bændur ekki hirt um að verjast. Hún telur líklegast að það sé hagamúsin fremur en húsamúsin sem veldur miklum músagangi enda tímgist hagamúsin bara á sumrin. Í músaárum geti ungar sem fæðast að vori sjálfir náð að tímgast fyrir haustið. „Um leið og fer að kólna hressilega sækja þær í skjól og þá koma þær inn. Þær eru að leita sér að mat og skjóli fyrir veturinn og því er mikið flakk á þeim,“ segir Ester. Stór hluti drepis um veturinn. 

Branduglur gætu komið í kjölfarið

Hagamýs gera sér holur oft undir trjám eða í hrauni. „Safna ull eða einhverjum mjúku í holurnar og geyma matarforða eins og sortulyngsber. En það dugir ekki lengi því maður sér músaspor í snjónum,“ segir Ester. Dæmi séu um að hagmýs fari inn í bílskúra og hreiðri um sig í gönguskóm eða skíðaskóm yfir veturinn og þá hafi mýs nagað rafkerfi bíla. Hún telur mögulegt að mikill fjöldi músa gæti gert það að verkum að branduglan sjáist meira á Austurlandi í vetur. „Hún er eini sérhæfði músaafræninginn hér á Íslandi,“ segir Ester.

Hasar á skólalóðinni 

Ekki er nema von að fólki bregði við að sjá mýs. Fréttamaður RÚV var á ferð í Egilsstaðskóla á föstudag og vildi svo til að mús herjaði á skólalóðina. Upphófst mikill eltingarleikur. Hann má sjá hér að ofan.

runar.reyni[email protected]