Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myrtu 23 syrgjendur eftir jarðarför

27.07.2019 - 23:02
Mynd með færslu
Grímuklæddir og þungvopnaðir illvirkjar Boko Haram stilla sér upp fyrir myndavélar Mynd: Boko Haram - Twitter
Vígamenn úr hryðjuverkasamtökunum Boko Haram myrtu í morgun 23 syrgjendur við jarðarför í Norðaustur-Nígeríu. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir sjónarvottum á staðnum. Illvirkjarnir komu akandi á mótorhjólum og hófu skothríð á hóp karlmanna á heimleið frá jarðarför nærri Maiduguri, höfuðborg Borno-ríkis, segir Bunu Bukar Mustapha, sem fer fyrir vopnaðri varnarsveit heimamanna.

„Okkar menn sóttu 23 lík á vettvang árásarinnar, sem gerð var í morgun,“ sagði Mustapha í samtali við fréttamann AFP. Embættismaður í héraðsstjórninni staðfesti hvort tveggja árásina og fjölda fallinna.

Boko Haram herjar enn á Bornohérað, þrátt fyrir áralanga sókn Nígeríuhers gegn þessum illræmdu samtökum, og hefur árásum þeirra á hvort tveggja almenna borgara og hernaðarleg skotmörk farið fjölgandi upp á síðkastið.

Á fimmtudagskvöld réðust vígamenn samtakanna á neyðarbúðir fólks á vergangi, skammt utan við Maiduguri, myrtu þar tvo íbúa og rændu öllum matarbirgðum búðanna. Áður höfðu þeir ráðist á varðstöð hersins skammt frá og brennt hann til grunna.

Vígamenn Boko Haram eru taldir hafa myrt um það bil 27.000 manns á þeim tíu árum sem þau hafa stundað sín illvirki og á þriðju milljón manna hafa flúið heimili sín vegna grimmdarverka þeirra. Flest fórnarlömb þeirra eru í norðausturhluta Nígeríu, en síðustu ár hafa samtökin líka herjað á nærliggjandi héruð í Tsjad, Níger og Kamerún. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV