Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Myrti tíu Belga - sækir um hæli í Belgíu

09.08.2018 - 18:39
Bernard Ntuyahaga.
Bernard Ntuyahaga. Mynd: Eric Vidal/EPA
Fyrrum yfirmaður í her Rúanda sem dæmdur var í tuttugu ára fangelsi fyrir ellefu árum, fyrir aðild sína að morðum á tíu belgískum friðargæsluliðum árið 1994, hefur sótt um hæli í Belgíu. Umsóknin er afar umdeild í Belgíu.

Bernard Ntuyahaga var sakaður um að hafa komið af stað orðrómi um að friðargæsluliðarnir hefðu skotið niður flugvél forseta Rúanda, Juvenal Habyarimana, 6. apríl 1994 en dauði forsetans er talinn hafa verið kveikjan að þjóðarmorðunum í landinu.

Daginn eftir flutti Ntuyahaga friðargæsluliðana tíu frá heimili forsætisráðherra Rúanda, sem þeir áttu að gæta, og afhenti þá hermönnum í herstöð í höfuðborginni Kigali. Belgarnir voru höggnir til bana með sveðjum, skotnir, og barðir til dauða af hermönnunum. Forsætisráðherrann, Agatha Uwilingiyimana, var einnig myrtur.

Dauði friðargæsluliðanna í Rúanda varð til þess að Belgar kölluðu hersveitir sínar í landinu heim og aðrar þjóðir sem tóku þátt í friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna fylgdu í kjölfarið.

Brotthvarf friðargæsluliðanna er talið hafa átt stóran þátt í því að öfgahópar Hútúa gátu framið þjóðarmorð í landinu án nokkurrar mótspyrnu. Meira en átta hundruð þúsund manns, aðallega Tútsar, voru myrt á þriggja mánaða tímabili.

Ntuyahaga var árið 2007 dæmdur af dómstóli í Belgíu til tuttugu ára fangelsisvistar fyrir þátt sinn í morðunum. Honum var sleppt í júní en hefur síðan dvalið á lokaðri stofnun fyrir hælisleitendur samkvæmt frétt The Guardian.

Belgískum stjórnvöldum er skylt samkvæmt lögum að ganga úr skugga um að Ntuyahaga eigi ekki í hættu að verða fyrir pyntingum eða ómannúðlegri meðferð í heimalandinu. Talið er að hann verði handtekinn við komuna þangað, verði hann sendur aftur.

Eiginkona Ntuyahaga og börn búa í Danmörku. Belgískir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að hann hafi sótt um hæli þar en Danir hafnað þeirri umsókn. Fái hann hæli í Belgíu gæti hann ferðast þangað og sótt fjölskyldu sína heim. Hermenn í belgíska hernum, bæði fyrrverandi og núverandi, hafa lýst furðu sinni yfir hælisumsókninni, sem og samtök fórnarlamba þjóðarmorðsins.

FILE - In this Saturday, April 5, 2014 file photo, family photographs of some of those who died hang in a display in the Kigali Genocide Memorial Centre in Kigali, Rwanda. Officials said Thursday, Dec. 10, 2015 that 53-year-old Rwandan Ladislas Ntaganzwa,
Ljósmyndir af fórnarlömbum þjóðarmorðsins á minningarsafni í Kigali.