Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Myrti pólitísk rétthugsun grínið?

Mynd: Gréta Kristín Ómarsdóttir / Gréta Kristín Ómarsdóttir

Myrti pólitísk rétthugsun grínið?

09.08.2018 - 10:36

Höfundar

Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri, rakst á grein þar sem því var haldið fram að gamanþáttaröðin Friends markaði upphaf falstímanna sem við lifum á, falli sannleikans. Hún hóf því að smíða nýtt verk, Insomnia, sem verður frumsýnt í haust.

„Ég las grein þar sem stóð að Friends markaði upphaf einhvers konar fals-siðmenningar. Að þar væri einhvers konar vitnisburður um upphafið á þessari síð-sannleikaöld sem við lifum á núna og ég fékk þetta á heilann,“ segir Gréta Kristín sem lagðist í rannsóknir á Friends-þáttaröðinni og setur nú upp verk í Þjóðleikhúsinu í vetur, ásamt leikhópnum Stertabendu, sem nefnist Insomnia.

Mynd með færslu
Leikhópurinn Stertabenda

„Við höfðum verið að leita að einhverju verkefni sem við gætum notað til þess að þróa áfram okkar aðferðir og fagurfræði í leikhúsinu,“ segir Gréta og á við leikhópinn Stertabendu. 

Fitufordómar og rasismi

Hún segir Friends-þáttaröðina hafi verið fullkomið fyrirbæri, því þar spilast inn í væntingar áhorfenda sem hægt er að leika sér með. Einnig var þáttaröðin sjálf ákveðið leikhús, því hún var að hluta til tekin upp í stúdíói með áhorfendur fyrir framan sviðið. Gréta segir að smám saman hafi handritshöfundar farið að taka mið af viðbrögðum og væntingum áhorfendanna og þróað þáttaröðina með það í huga.

„Svo er þetta auðvitað barn síns tíma. Við horfum til baka og sjáum það sem fólk sá ekki; við sjáum fitufordóma, hómófóbíu, transfóbíu og rasisma.“ Vinahópurinn verður að teljast einsleitur, miðað við vinahópa sem birtast á skjánum í dag, og samanstendur af einföldum forréttindapésum

Pólitísk rétthugsun flækir gamanleikinn

Gréta segir að sumir telji gamanleikinn heyra sögunni til, því fólk þori ekki að grínast í dag, af ótta við að móðga einhvern. „Þetta finnst mér áhugaverður átakaflötur, pólitísk rétthugsandi kynslóðin horfir til baka, við náttúrlega ólumst upp við þetta.“ Í samvinnu við danska leikskáldið Amalie Olesen reynir hópurinn að gera uppgjör við sína eigin kynslóð, í gegnum Friends, og skoða grínið í eðli sínu.

Mynd með færslu
 Mynd: Stertabenda - Facebook
Leikhópurinn á æfingu.

Þrátt fyrir að geta sett mörg spurningamerki við efnivið Friends-þáttanna segir Gréta hópinn skoða þættina af virðingu, enda séu þeir komnir til ára sinna. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi þáttaröð vekur fólk til umhugsunar. „Það er svo mikið efni til. Það er svo mikið af greinum og greiningum, allt frá einhverjum BuzzFeed-greinum yfir í fræðigreinar, allt um merkingu og arfleifð þessarar þáttaraðar.“

Gera grín að sjálfum sér

Þessi gríðarlegi áhugi almennings á þáttaröðinni er vitnisburður um áhrifin sem hún hafði á þær kynslóðir sem ólust upp við hana. Þekking áhorfenda á efninu er djúpstæð og margir kunna jafnvel heilu þættina utanað. Gréta segist ekki hafa óttast að fara inn á vettvang aðdáendanna, heldur bjóði þetta enn frekar upp á leik með væntingar áhorfenda. „Það er eitthvað samtal sem á sér stað við áhorfendur, sem er á dýpra stigi.“

„Við erum líka að gera grín að okkur sjálfum; þessum klisjukennda, vinstrisinnaða, pólitískt rétthugsandi listamanni sem ætlar að drulla yfir lágmenninguna,“ segir Gréta. „Af hverju getum við ekki bara hlegið að þessum bröndurum?“