Myndskeið sýnir þegar þotan verður fyrir flugskeyti

09.01.2020 - 22:17
CORRECTS YEAR - Debris is seen from a plane crash on the outskirts of Tehran, Iran, Wednesday, Jan. 8, 2020. A Ukrainian airplane carrying at least 170 people crashed on Wednesday shortly after takeoff from Tehran’s main airport, killing all onboard, state TV reported. (AP Photos/Mohammad Nasiri)
 Mynd: AP
Bandaríska blaðið New York Times birti í kvöld myndskeið sem virðist sýna þegar úkraínsk farþegaþota verður fyrir flugskeyti íranska hersins. Forsætisráðherra Kanada sagði á fréttamannafundi í kvöld að allt benti til þess að Íranar hefðu skotið þotuna niður.

New York Times segist hafa gengið úr skugga um að myndskeiðið sé ófalsað. Það sýnir hvernig lítil sprenging verður þegar flugskeytið hæfir vélina en hún springur ekki í loft upp.  Vélin hélt áfram ferð sinni en var síðan snúið við og ætlaði að lenda aftur á flugvellinum í Teheran.  Hún flaug síðan í ljósum logum í átt að flugvellinum áður en hún sprakk í loft upp, segir New York Times.

176 voru um borð í Boeing 737 farþegaþotunni, þar af 63 kanadamenn en 138 áttu bókað far með tengiflugi frá Kænugarði í Úkraínu til Toronto.

Vélin fórst skömmu eftir flugtak frá alþjóðaflugvellinum í Teheran en bandarískir embættismenn greindu frá því síðdegis að þeir væru fullvissir um að Íranar hefðu skotið vélina niður.

Hassan Rezaeifar, sem fer fyrir rannsókn í Íran, sagði í kvöld að þeir sem koma að henni hefðu útilokað fyrir nokkru að vélin hefði verið skotin niður. Vélin hafi flogið í nokkrar mínútur eftir að henni var snúið við í átt að flugvellinum, sem væri ómögulegt ef flugskeyti hefði hafnað í henni.

Þá hafi ekkert brak úr eldflaug fundist á slysstað eins og bandarískir embættismenn hafi haldið fram. 

Bandarískir embættismenn telja að íranskt flugskeyti hafi grandað úkraínsku farþegaþotunni sem fórst í Íran í fyrrinótt, nokkru eftir að flugskeytum var skotið þaðan á herstöðvar í Írak. 

Fréttastofa CBS hafði síðdegis eftir heimildarmönnum sínum í bandarísku leyniþjónustunni að gervihnöttur hafi um nóttina numið tvo innrauða depla sem bentu til þess að flugskeytum hafi verið skotið á loft. Nokkru síðar hafi sést annar depill sem bendi til þess að sprenging hafi orðið. Donald Trump forseti tjáði sig sömuleiðis um málið og kvaðst hafa sínar grunsemdir um að einhver hafi gert mistök með þeim afleiðingum að þotan var skotin niður. 

Þotan fórst nokkru eftir að Íranar gerðu flugskeytaárás á tvær herstöðvar í Írak þar sem herlið Bandaríkjamanna og annarra Atlantshafsbandalagsríkja hélt til. Árásirnar voru gerðar í hefndarskyni fyrir að íranski hershöfðinginn Qasem Soleimani var tekinn af lífi í drónaárás Bandaríkjahers í síðustu viku.