Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Myndlist, fræðsla og menning í Skaftfelli

Mynd: RÚV / RÚV

Myndlist, fræðsla og menning í Skaftfelli

12.03.2020 - 07:59

Höfundar

„Það mætti segja að menningarstarfið hérna á Seyðisfirði sé mjög frjósamt. Hingað koma margir og dvelja tímabundið eða til lengri tíma og vinna að skapandi verkefnum,“ segir Hanna Christel Sigurkarlsdóttir fræðslufulltrúi Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar Austurlands sem er staðsett á Seyðisfirði.

Að sögn Hönnu Christelar er starfsemi Skaftfells í meginatriðum þríþætt. „Hérna erum við með sýningahald, 4-5 sýningar á ári og höldum úti sýningum allan ársins hring. Svo erum við með listamenn sem koma hingað í gestavinnustofu og dvelja í 1-2 mánuði. Þetta eru í kringum 25 listamenn sem koma hingað og vinna þá að verkum sínum eða dvelja í þematengdum gestavinnustofum. Svo erum við með fræðslustarfsemi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skaftfell opnaði árið 1998. „Miðstöðin var stofnuð af hópi fólks sem hafði þann áhuga að vilja koma af stað einhverri menningarstarfsemi. Þau fengu þetta hús gefins frá hjónunum Karolínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Það var ákveðið að leggja áherslu á myndlist og nýta þennan sal undir sýningar og þriðju hæðina fyrir listamenn,“ segir Hanna Christel.

Pressur Dieters Roth

Fræðslustarfsemin er býsna viðamikill þáttur í starfsemi Skaftfells. „Við erum með til dæmis listfræðsluverkefni sem við búum til einu sinni á ári og bjóðum öllum grunnskólum á Austurlandi að taka þátt. Svo höfum við tekið þátt í BRAS, sem er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Svo erum við mikið að vinna með Listaháskólanum en þau hafa komið hingað síðan 2001 og koma í kringum 15, 16 nemendur sem dvelja í tvær vikur og vinna þá að verkum sem enda hérna í sýningarsalnum. Núna síðast í janúar þá fengum við til okkar 16 nemendur sem lögðu áherslu á prentmiðilinn og settu upp silkiþrykkaðstöðu hérna í salnum. Þau fengu líka að vinna í Tækniminjasafni Austurlands en þar eru pressur sem Dieter Roth heitinn átti. Þannig að þau unnu með prentið og endurðu með sýningu hérna í salnum,“ segir Hanna Christel.

Nánari upplýsingar um dagskrá Skaftfells má finna hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Steina, hvaða orgía var þetta?“

Myndlist

Skjáskot af skjá sem eignast sjálfstætt líf

Myndlist

Ein yfirgengilegasta og hárugasta tískusýning heims

Myndlist

Guðjón Ketilsson valinn myndlistarmaður ársins