Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Myndi hafa undirskriftir til hliðsjónar

20.07.2015 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fékk í dag afhentar undirskriftir nærri 53.600 kjósenda sem skora á forsetann að vísa í þjóðaratkvæði hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir sem gera ráð fyrir úthlutun aflaheimilda til meira en eins árs.

Stofnað var til undirskriftasöfnunarinnar eftir að fram kom á Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar þess efnis að makríll skyldi kvótasettur og aflaheimildum úthlutað til sex ára í senn.

Frumvarpið náði ekki fram að ganga fyrir þingfrestun en Ólafur Ragnar sagði, þegar hann veitti undirskriftunum viðtöku að hann myndi hafa þær til hliðsjónar ef Alþingi samþykkti sambærilegt frumvarp. „Að sjálfsögðu mun ég gera það, þess vegna ítrekaði ég hér í dag grundvallarefnisþættina í yfirlýsingunni sem ég gaf út fyrir tveimur árum síðan þegar mér bárust líka undirskriftir í tengslum við meðferð þessara auðlinda. Ég tel að þegar það liggur fyrir hvað ég sagði þá, og ítrekaði í dag, og þessi mikli fjöldi, þá eigi öllum að vera ljóst að forseti hlýtur að hafa það ríkulega í huga, ef og þegar kemur að því að eitthvað slíkt frumvarp berist á borð forseta.“