„Ég heillaðist af fólkinu og menningunni — ég segi eins og krakkarnir, hún er eitthvað svo geðveik,“ segir Gísli þegar hann lýsir fyrstu kynnum sínum af Taílandi.
„Ég heillaðist af fólkinu og menningunni — ég segi eins og krakkarnir, hún er eitthvað svo geðveik,“ segir Gísli þegar hann lýsir fyrstu kynnum sínum af Taílandi.
Gísli segir „ladyboy“-menninguna vera gríðarstóra víðar í Asíu og að markmið hans sé að opna augu annarra fyrir þessum heimi.
„Eins og ég upplifi það þá er þetta hugtak sem þeir nota án þess að það sé niðrandi. Það er enginn niðrandi stimpill á þessu hugtaki.“ Gísli segir að fordómaleysi Taílendinga gagnvart transfólki megi rekja til trúarbragða, en Taílendingar eru að stærstum hluta iðkendur búddisma.
Hann upplifir „ladyboys“ sem eins konar sameiningartákn – í þeim sameinist karl- og kvenkyn. „Í gegnum söguna hafa ladyboys verið uppi á einhverjum stalli þegar kemur að því að upphefja Búdda,“ segir Gísli.
Þó „ladyboys“ sé að finna á öllum þrepum þjóðfélagsins — þær vinna til að mynda í verksmiðjum, á snyrtistofum og við afgreiðslustörf — þá hafa margar þeirra lífsviðurværi sitt af vændi.
„Þær sem að fara í vændi, tala um það að þegar þær eru komnar yfir þrítugt deyi þær frá samfélögunum,“ segir Gísli. „Venjan er sú að þær hafi komið ár sinni það vel fyrir borð að þær eiga sjóði, eða hafi aðila sem eru tilbúnir að sinna þeim. En þegar þær draga sig úr samfélaginu kalla þær það hreinlega að deyja.“
Meginviðfangsefni ljósmyndaverkefnis Gísla er „ladyboy“ sem kallar sig Nancy, og starfaði sem vændiskona. Í þar síðustu ferð hans til Taílands komst hann að því að hún hafði smitast af HIV og dregið sig úr vændinu. „Það fór ekkert á milli mála að hún var orðin mjög veik.“
Gísli Hjálmar Svendsen, ljósmyndari, var gestur Lestarinnar á Rás 1.