Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myglan í Fossvogsskóla mun verri en talið var

07.06.2019 - 07:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Mygla í þaki Fossvogsskóla er mun meiri en talið var í fyrstu. Umfangsmiklar framkvæmdir standa þar yfir vegna raka og myglu í húsnæði skólans. Auk þess var loftgæðum ábótavant. Ljóst er að framkvæmdir í hluta skólahúsnæðsins tefjast fram á haust. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, sendi foreldrum í gær.

Í pósti frá Aðalbjörgu kemur fram að síðdegis í gær hafi komið nýjar upplýsingar fram um framvindu framkvæmdanna í Fossvogsskóla. Ástand þaks í Vesturlandi, einni byggingu skólans, sé mun verra en fyrstu athuganir hafi leitt í ljós. Þaksperrur yfir miðrými Vesturlands séu skemmdar vegna raka og því þurfi að fjarlæga þær. Þetta geri það að verkum að framkvæmdir í þessum hluta húsnæðisins tefjast fram á haustið. 

„Í byrjun ágúst liggur gangur framkvæmdanna betur fyrir og eins áform um tilhögun skólastarfs í upphafi nýs skólaárs að því marki sem seinkun á skilum Vesturlands hefur áhrif á þau, “ segir í tölvupóstinum. 

Boðað hefur verið til foreldrafundur í fyrri hluta ágúst.