Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Múrinn borgaður með skatti á vörur frá Mexíkó

Mynd með færslu
Sean Spicer, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins. Mynd: EPA
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, upplýsti á fundi með fréttamönnum í morgun að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætli að leggja 20 prósent skatt á allar vörur sem fluttar eru frá Mexikó til Bandaríkjanna. Fjármagnið verði síðan nýtt til að greiða fyrir byggingu múrsins sem Trump ætlar að reisa á landamærum landanna tveggja.

Í umfjöllun Washington Post kemur fram að Mexíkó sé annar stærsti viðskiptavinur á bandarískum vörum og 80 prósent af útflutningsvörum Mexíkó eru seldar í Bandaríkjunum.  Þetta á við um bíla, flatskjái og avókadó, svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki er enn ljóst hvernig þessari nýju skattlagningu verður háttað. Spicer sagði þó á fréttamannafundinum að útflutningsvörur væru skattlagðar í Bandaríkjunum en ekki innflutningsvörur. Og það væri fáránlegt. „Með þessari skattlagningu fáum við tíu milljarða dollara á ári og getum auðveldlega greitt fyrir múrinn með þeirri upphæð.“

Tilskipun sem Donald Trump undirritaði í gær þar sem kveðið er á um að hefjast eigi handa við byggingu múrsins hefur hleypt illu blóði í stjórnvöld í Mexíkó. 

Pena Nieto, forseti landsins, hefur hætt við opinbera heimsókn til Bandaríkjanna vegna málsins og Washington Post segir samband ríkjanna tveggja ekki hafa verið jafn viðkvæmt í háa herrans tíð. Trump reyndi að gera lítið úr þessari ákvörðun og sagði á fundi með repúblikönum í Fíladelfíu að forsetarnir tveir hefðu komist að þessari niðurstöðu sameiginlega. 

Nieto var afdráttarlaus í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í nótt. „Ég harma og fordæmi ákvörðun Bandaríkjanna um að halda áfram að reisa múr sem hefur árum saman aðskilið okkur í stað þess að sameina. Mexíkó hefur enga trú á múrum.“ Mexíkó myndi ekki greiða fyrir þennan múr.