Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Munntóbaksfaraldur í dönskum menntaskólum

11.01.2020 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Æ fleiri danskir unglingar á menntaskólaaldri nota munntóbak eða snus. Frá þessu greinir á vef danska ríkisútvarpsins, DR, og þróunin sögð voveifleg. Frá síðustu könnun 2014 hefur fjöldi þeirra sem notar munntóbak daglega fimmfaldast, samkvæmt tölum frá Lýðheilsustofnun Danmerkur.

Danskir drengir eru líklegri til að nota munntóbak eða annarskonar nikótíngjafa en stúlkurnar. Rúm ellefu prósent menntaskóladrengja nota munntóbak daglega og þar með er snusið orðið vinsælla en sígarettan.

Læknir sem rætt er við á vef DR er í öngum sínum og segir þetta hættulega þróun. Enda kemur fram að í snusinu eru krabbameinsvaldandi efni rétt eins og í sígarettum. Þá er tekið viðtal við Oliver Riise, nítján ára menntaskólanema sem að eigin sögn notar munntóbak daglega, en hann er að fá sér snus á myndinni hér fyrir ofan.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV