Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Munkar komu með dýrlingsbein til landsins

20.11.2018 - 18:55
Munkar ferðast nú um landið með hluta af líkamsleifum heilagrar Theresu frá Lisieux. Hún er einn áhrifamesti nútímadýrlingur kaþólsku kirkjunnar og gefst landsmönnum kostur á að berja helgidóm hennar augum á sex stöðum.

Það ríkti mikil eftirvænting á hafnarkantinum á Seyðisfirði í morgun. Það er ekki á hverjum degi sem heilagt skrín kemur til landsins með Norrænu og munkar frá Reyðarfirði og nunna frá Egilsstöðum voru mætt á svæðið. „Ég er spenntur eftir komu þessara helgidóma heilagrar Theresu frá Lisieux. Þetta er bara fallegt skrín og inni eru líkamsleifar heilagrar Theresu,“ segir séra Pétur Kovácik, umsjónarprestur í sókn heilags Þorláks á Austurlandi.

Það voru munkar frá Frakklandi og Hollandi sem komu með skrínið eftir 12 þúsund kílómetra ferðalag um Noreg, Svíþjóð, Finnland og Danmörku. Beinum heilagrar Theresu var deilt í þrjá helgidóma og þessi er sá eini sem ferðast um heiminn.

Heilög Theresa fæddist í Frakklandi árið 1873. Hún varð nunna 15 ára gömul eftir að hafa gengið á fund páfa og biskups til að fá að sverja eið svo ung. Hún vakti strax athygli fyrir trú sína í lifandi lífi og leit á sjálfa sig sem „lítið blóm Jesú“. Hún dó úr berklum aðeins 24 ára gömul. Árið 1925, 28 árum eftir dauða hennar var hún tekin í dýrlingatölu ekki síst vegna handrita sem hún skildi eftir og úr varð sjálfsævisaga hennar - Saga af sál. „Í þessum handritum fundum við afar sérstæða trúarkenningu sem kölluð er litla leiðin. Hún snýst um að fara beint til Jesú eins og að taka lyftu. Þessi litla leið er leið gleði vegna vonarinnar og þess vegna hefur hún gert undursamlega hluti jafnvel þó hún hafi dáið fyrir meira en öld. Áður en hún dó sagði hún að hún myndi nýta himnavist sína í að verða til góðs á jörðu. Og það er nákvæmlega það sem hefur gerst,“ segir bróðir Syméon en hann er franskur og býr í Banneux klaustri í Belgíu. 

Helgidómurinn kom til Péturskirkju á Akureyri í dag og þar verður opið til miðnættis og óttusöngur í fyrramálið. Eftir það ferðast hann til Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Hornafjarðar og Reyðarfjarðar.

Hér má sjá ferðaáætlunina:

Akureyri - St. Péturskirkja

Þriðjudagur 20. nóvember. Skrínið kemur kl. 16.00. Aftansöngur kl. 18.00. Skriftir. Rósakransbæn kl. 18.30. Heilög messa kl. 19.30. Skriftir og bænastundir. Kirkjan er opin til miðnættis.

Miðvikudagur 21. nóvember. Efri óttusöngur kl. 9.00. Svo heilög messa. Brottför skrínsins kl. 10.00.

Reykjavík - Maríukirkja, Breiðholti

Miðvikudagur 21. nóvember. Skrínið kemur kl. 16.00. Hátíðleg messa kl. 18.30. Kirkjan er opin alla nóttina.

Fimmtudagur 22. nóvember. Heilög messa kl. 6.30. Bænir í kirkjunni. Brottför skrínsins kl. 10.00

Hafnarfjörður - Karmelklaustur

Fimmtudagur 22. nóvember. Skrínið kemur kl. 10.30 og verður í innri kapellu nunnanna til næsta dags kl. 16.00.

Föstudagur 23. nóvember. Helgir dómar hl. Teresu settir kl. 16.00 í kapellu til dýrkunnar almenningi. Aftansöngur kl. 16.40. Heilög messa á pólsku kl. 20.00 og blessun rósanna. Bænavaka til miðnættis.

Laugardagur 24. nóvember. Heilög messa kl. 9.00 og blessun rósanna. Tími til bænar. Kveðjuathöfn helgra dóma hl. Teresu kl. 14.00.

Reykjavík - Dómkirkja Krists konungs, Landakoti

Laugardagur 24. nóvember. Koma skrínsins kl. 14.30. Heilög messa kl. 16.00. Skriftir kl. 17.00. Rósa-kransbæn. kl. 17.30. Heilög messa kl. 18.00. Aftansöngur kl. 19.30. Bænavaka til kl. 23.00.

Sunnudagur 25. nóvember. Efri óttusöngur kl. 7.30. Heilög messa kl. 8.30. Heilög biskupsmessa kl. 10.30. Heilög messa kl. 13.00. Svo bænir og tækifæri til skrifta. Aftansöngur kl. 17.00. Rósakransbæn kl. 17.30. Heilög messa kl. 18.00. Svo bænir. Kirkjan er opin til kl.

Mánudagur 26. nóvember. Efri óttusöngur kl. 7.30. Heilög messa kl. 8.00. Brottför kl. 10.00.

Höfn í Hornafirði - Kirkja hl. fjölskyldu og hl. Jóhannesar Maríu Vianney

Mánudagur 26. nóvember. Koma kl. 17.00. Rósakransbæn kl. 18.00. Heilög messa kl. 19.00. Tilbeiðsla altarissakramentisins frá kl. 22.00 til miðnættis. Kirkjan er opin til kl. 01.00.

Þriðjudagur 27. nóvember. Efri óttusöngur kl. 8.00. Brottför kl. 10.00

Reyðarfjörður - St. Þorlákskirkja, Kollaleiru

Þriðjudagur 27. nóvember. Koma kl. 16.00. Aftansöngur kl. 18.25. Rósakransbæn. kl. 18.35. Heilög messa kl. 19.00. Tilbeiðsla altarissakramentisins frá kl 22.00 til 08.00. Kirkjan er opin alla nótt.

Miðvikudagur 28. nóvember. Efri óttusöngur kl. 8.00. Heilög messa kl. 9.00. Svo bænir og tækifæri til skrifta. Miðaftansöngur kl. 12.45. Litanía kl. 14.30. Brottför kl. 15.00.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV