Ásgeir Jónsson hagfræðingur tekur við stöðu seðlabankastjóra af Má Guðmundssyni í næsta mánuði, samkvæmt ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Skipunin var rædd í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata sagði hrunið hafa áhrif á traust almennings til Ásgeirs. „Ég er ekki að segja að hann sé endilega slæmur aðili á neinn hátt en fólk man eftir orðum hans í aðdraganda hrunsins og man eftir þætti hans. Fólki finnst það enn óþægilegt. Þegar við erum að tala um að það vanti trúverðugleika í pólitík þá er þetta ekki gott skref.“
Smári sagðist ekkert hafa út á persónu Ásgeirs að setja og kvaðst hafa trú á honum sem stjórnanda en teldi óheppilegt að hann yrði leiðtogi Seðlabankans.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, sagði að ekki ætti að gera of mikið úr hruninu. Fólk lærði af mistökum sínum og ekki ætti að setja þau á oddinn. Hún sagði að staða seðlabankastjóra eftir sameininguna við Fjármálaeftirlitið yrði meiri stjórnunarstaða en fræðimannsstaða. „Þannig að ég efast ekki um það að Ásgeir sé mjög hæfur með tilliti til hans þekkingar á hagfræði. Hann leiddi stýrihóp eða nefnd með tillögur um breytingar á peningastefnu sem kom út í fyrra. Hins vegar held ég að við þurfum á stjórnanda að halda þarna. Það á eftir að koma í ljós hvernig hann stendur sig í því.“