Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Mun berjast til hins ítrasta í þessu máli“

30.05.2017 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Sigurður Björn Blöndal formaður borgarráðs segir að íbúar hafi mótmælt innri leið Sundabrautar og óvíst hvort hún hefði nokkurn tímann verið samþykkt. Borgaryfirvöld geti ekki beðið endalaust eftir því að ríkið ákveði sig með hvort það vill leggja Sundabraut eða ekki. Borgaryfirvöld muni berjast til hins ítrasta fyrir því að Vogabyggð rísi og innri leiðin verði ekki fyrir valinu.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri gagnrýndi borgina harðlega í fréttum í gær fyrir að skipuleggja Vogabyggð og útiloka þar með hina svokölluðu innri leið Sundabrautar. Með því sé aðeins einn valkostur eftir, ytri leiðin- sem sé allt að 10 milljörðum dýrari. Vegamálastjóri sagði að borgin hefði ekki einu sinni svarað ítrekuðum bréfum Vegagerðarinnar um að hún verði að hafa lögboðið samráð við um gerð þjóðvega í byggð. Hreinn benti á að lagaheimild væri fyrir því að krefja Reykjavíkurborg um þann aukakostnað sem hlýst af því að hafa aðeins dýrari valkostinn eftir.

Inn og út af áætlun

Sigurður Björn Blöndal formaður borgarráðs bendir á að Sundabraut hafi farið inn og út af samgönguáætlun undanfarin ár.

„Ákvörðun um legu Sundabrautar hefur einhverra hluta aldrei legið fyrir. Það sem mér sýnist að verið sé að fara fram á er að það sé beðið með alla uppbyggingu á meðan ríkið eða Vegagerðin í þessu tilviki ákveði sig. En þegar það tekur áratugi þá náttúrulega kemur að þeim tímapúnkti að það er ekki hægt að bíða endalaust. Fyrir utan að það voru búnar að koma mjög hávær mótmæli frá íbúum varðandi innri leiðina og ljóst að það yrði alltaf mjög erfitt að koma því í gegn“ segir Sigurður Björn.

Málið komið aftur á dagskrá

Nýr starfshópur Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra skoðar gerð Sundabrautar á ný og málið er komið aftur á dagskrá. Sigurður Björn segir að borgin muni kanna lagastoð að baki kröfu Vegagerðarinnar.

„Ef að íbúar vilja ekki fá hlutina, til dæmis þjóðveg í gegn hjá sér þá sé  sveitarfélagið skylt að greiða mismuninn, ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er en við þurfum bara að yfirfara þessa útreikninga og lögfræðina í þessu. Við berjumst auðvitað í þessu málin alveg hreint til hins ítrasta. Það er þörf á því að byggja íbúðir og íbúðarhúsnæði. Þetta er lykilsvæði þegar kemur að íbúðauppbyggingu í borginni“ segir Sigurður Björn.

Og Sigurður Björn gefur lítið fyrir áhyggjur Vegagerðarinnar af umferðarþunga á Vesturlandsvegi og í Ártúnsbrekku.  Almenningssamgöngur leysi vandann.

„Umferðarmálin í borginni verða fyrst og fremst leyst með uppbyggingu borgarlínu“ segir Sigurður Björn Blöndal formaður borgarráðs.