
Nadia Murad var handsömuð af liðsmönnum Íslamska ríkisins í ágúst 2014 og hneppt í kynlífsánauð í borginni Mosul. Hún sætti þar pyntingum og ofbeldi í þrjá mánuði áður en henni tókst að sleppa og flýja til Þýskalands. Þar hefur hún helgað sig baráttunni gegn mansali og glæpum og vakið athygli á illri meðferð á Jasídum á yfirráðasvæðum Íslamska ríkisins, ekki síst konum og börnum. Um 3.000 Jasída er enn saknað, og talið er að þeim sé haldið föngnum.
Denis Mukwege stofnaði og starfrækir Panzi-sjúkrahúsið í Bukavu í austurhluta Kongó, en þar hafa þúsundir kvenna leitað aðhlynningar og meðferðar eftir nauðganir vígamanna á svæðinu. Mukwege hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og hefur áður verið orðaður við friðarverðlaun Nóbels.
Við athöfnina kom fram að þau hefðu orðið fyrir valinu til að vekja athygli á því að konur þarfnist verndar í stríði, sérstaklega konur sem tilheyra minnihlutahópum, og að draga verði brotamenn til ábyrgðar.
Hér má fylgjast með athöfninni.
Kvikmynd um Murad, On Her Shoulders, er á meðal myndanna á RIFF kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir í Reykjavík og samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum hátíðarinnar er til skoðunar að sýna myndina aftur á sunnudag.