Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Muhammad Ali látinn

Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com

Muhammad Ali látinn

04.06.2016 - 05:55
Muhammad Ali, þrefaldur heimsmeistari í hnefaleikum, er látinn, 74 ára að aldri. Ali lést eftir stutta sjúkrahúslegu vegna ótilgreindra veikinda í öndunarfærum. Hann þjáðist einnig af Parkinsons-sjúkdómnum, sem mun hafa gert illt verra. Trúnaðarmaður fjölskyldu hans tilkynnti þetta laust fyrir hálffimm í morgun að íslenskum tíma og greindi frá því, að jarðarförin muni fara fram í heimabæ Alis, Louisville í Kentucky. Ali var einn þekktasti og dáðasti íþróttamaður sögunnar.

22 ára heimsmeistari

Ali náði fyrst athygli íþróttaheimsins þegar hann varð ólympíumeistari í hnefaleikum í Róm árið 1960, þá í léttþungavigt, og hét enn Cassius Clay. Fjórum árum síðar vann hann fyrsta heimsmeistaratitilinn af þremur sem atvinnumaður, og þá í þungavigt, er hann lagði Sonny Liston að velli. Þá var hann aðeins 22 ára gamall og fáir höfðu trú á að honum tækist að sigra Liston, sem ekki hafði tapað atvinnubardaga fram að því.

1971 tapaði Ali sínum fyrsta bardaga á atvinnuferlinum gegn Joe Frazier. Þremur árum síðar heimti hann titlinn aftur úr hnefum George Foremans í frægum bardaga í Kinshasa í Zaíre, sem nú heitir Lýðveldið. Kongó. Hann tapaði titlinum til Leon Spinks snemma árs 1978 en hrifsaði hann aftur til sín með sigri á Spinks síðar sama ár. Ali vann 56 af 61 bardaga á atvinnumannaferlinum, sem stóð fram til 1981. Hann var útnefndur íþróttamaður aldarinnar af BBC og bandaríska tímaritinu Sports Illustrated og margverðlaunaður um veröld víða fyrir framlag sitt til íþrótta- og mannúðarmála.

Missti titilinn vegna mótmæla gegn Víetnam-stríðsins

Ali var mikill friðarsinni og 1967 gerðist hann svo djarfur að gagnrýna Víetnam-stríðið, við lítinn fögnuð landa sinna. Hann neitaði að gegna herþjónustu og taka þátt í Víetnam-stríðinu, enda væri stríð andstætt kenningum spámannsins og lögmálum Kóransins. Var hann sviptur hvorutveggja heimsmeistaratitlinum og keppnisrétti í hnefaleikum fyrir vikið. Eftir nær fjögurra ára baráttu fyrir dómstólum var dómnum fyrir að neita herþjónustu hnekkt og hann fékk að setja upp boxhanskana að nýju.

Parkinsons

1984, þremur árum eftir að Ali lagði hanskana endanlega á hilluna, var hann greindur með Parkinsons-sjúkdóminn, en höfuðhögg eru talin á meðal líklegra áhættu- og orsakaþátta fyrir það afbrigði sjúkdómsins, sem Ali barðist við.

Fjórkvæntur margra barna faðir

Framan af ævinni bar Muhammad Ali nafnið Cassius Marcellus Clay en tók upp nýtt nafn er hann snerist til Íslamstrúar. Sagði hann Cassius Clay-nafnið vera þrælanafnið sitt, sem hann hefði ekkert við að gera lengur.

Ali kvæntist í fjórgang og lætur eftir sig sjö dætur og tvo syni. Fyrsta kona hans, Sonji Roi, var barþjónn, sem giftist Ali um mánuði eftir að þau kynntust, í ágúst 1964. Hjónabandið entist ekki lengi, þau skildu í janúar 1966. Sagan segir að ákveðnar kröfur sem Ali gerði um klæðaburð hennar með vísan til íslamsks siðar hafi átt sinn hlut í því, að Sonji hafi kosið að skilja við mann sinn.

Hann kvæntist öðru sinni 1967, Belindu Boyd, sem snerist til Íslamstrúar eftir brúðkaupið. Þau eignuðust fjögur börn; þrjár dætur og einn son. 1977 kvæntist Ali leikkonunni Veronicu Porsche og eignaðist með henni tvær dætur. Yngri dóttirin, Laila Ali, gerðist boxari, þrátt fyrir mótmæli föður síns, og vann alla sína 24 atvinnubardaga í ofur-millivigt og léttþungavigt.

Þau Ali og Porsche skildu 1986 og það sama ár kvæntist Ali fjórðu og síðustu konunni, Yolöndu „Lonnie“ Williams, góðri vinkonu frá fornu fari. Þau ættleiddu drenginn Asaad Amin, þegar sá stutti var fimm mánaða gamall. Þá átti Ali tvær dætur utan hjónabands.