Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

MS kom í veg fyrir innflutning annarra

03.01.2014 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjólkursamsalan ákvað að reiða fram 50 milljónir króna til að koma í veg fyrir að gefinn yrði út aukinn tollkvóti á smjöri. Útgáfa kvótans hefði þýtt aukna samkeppni í smjörsölu fyrir jól.

Ef hægt er að sýna fram á að Mjólkursamsalan eða aðrir framleiðendur geta ekki annað eftirspurn eftir smjöri eða öðrum afurðum, geta allir innflutningsaðilar, eins og Bónus, Hagkaup, Krónan og Nóatún, óskað eftir auknum innflutningskvóta á vörunni hjá atvinnuvegaráðuneytinu.

Samtök afurðarstöðva í mjólkuriðnaði sendu bréf til ráðuneytisins 26. nóvember og óskuðu eftir auknum tollkvóta á smjör til að sporna við fyrirsjáanlegum smjörskorti fyrir jól. Beiðnin var afturkölluð tveimur dögum síðar, áður en svar hafði borist. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu hefðu allir innflytjendur fengið kvótann ef um skort hefði verið að ræða. Um almenna aðgerð hefði verið að ræða, sem hefði ekki einskorðast við Samtök afurðarstöðva í mjólkuriðnaði.

Guðni Ágústsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að flytja hafi þurft inn írskt smjör til að tryggja að hægt væri að selja smjör og rjóma fyrir jólin. „Þá var það bara niðurstaðan að mjólkuriðnaðurinn tæki þetta á sig í þetta sinn. Ég sé ekki að þess verði þörf í framtíðinni, því bændurnir munu framleiða og íslenska kýrin mun mjólka þannig að við erum bara bjartsýnir á að þetta sé einstakt tilfelli og munum anna markaðnum.“

Aðspurður hvort viðræður hafi átt sér stað í millitíðinni segir Guðni að farið hafi verið yfir málið betur og það hafi þótt eðlilegt. „Þetta er þá bara bit fyrir mjólkuriðnaðinn, þetta tilfelli, og nægar birgðir til að ég vona og við trúum.“

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, sagði í samtali við fréttastofu að áhættan sem fylgdi því að auka tollkvóta væri meiri en fyrirtækið vildi taka á sig. 50 milljónirnar fóru því í ríkissjóð til að taka inn hráefni, fitu frá Írlandi sem notuð var í kálfafóður og mozzarella ost, til að hafa á markaði yfir jólin. Hann bendir á að aukningin í sölu á smjöri undanfarna mánuði hafi verið sú mesta í 40 ár og því sé þetta einstakt tilfelli.