Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

MR í úrslit eftir nauman sigur á MA

Mynd með færslu
 Mynd:
Menntaskólinn í Reykjavík tryggði sér sæti í úrslitum Gettu betur eftir æsispennandi keppni gegn Menntaskólanum á Akureyri í fyrri viðureign undanúrslita sem háð var í Austurbæ í kvöld. Hörkustuð var í salnum og mikil stemning á meðal áhorfenda.

Keppnin var jöfn allan tímann og aldrei munaði meira en tveimur stigum á liðunum. Lengst af leiddi MA en svo skiptust liðin á að hafa forystu. Aðeins munaði einu stigi á liðunum þegar haldið var í síðasta hluta keppninnar, 29 - 31 fyrir MR og 9 stig í pottinum. MA fékk 3 stig út úr fyrri vísbendingaspurningunni og MR náði tveimur stigum úr þeirri síðari og munurinn aðeins eitt stig. MR var fyrri til á bjölluna í Þríþrautinni en svaraði ekki rétt og var svarrétturinn þá í höndum MA og þar með möguleikinn á að vinna. Það tókst ekki og því varð niðustaðan sú að MR sigraði með 33 stigum gegn 32 stigum MA. 
Lið MR er skipaði þeim Sigrúnu Völu Árnadóttur, Hlyni Blæ Sigurðssyni og Ármanni Leifssyni og í liði MA eru þau Agnar Páll Þórsson, Magdalena Sigurðardóttir og  Símon Þórhallsson.
Næsta föstudag fer seinni viðureign undanúrslita fram þegar Fjölbrautaskóli Suðurlands mætir Kvennaskólanum í Reykjavík og hefst keppni kl.19.45. 

Elín Sveinsdóttir
dagskrárgerðarmaður