Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Móttaka annars hóps flóttafólks samþykkt

24.05.2016 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að taka móti öðrum hópi sýrlensks flóttafólks síðar á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir að Reykjavík, Árborg og Hveragerði taki á móti fólkinu sem kemur, líkt og fyrri hópur, frá Líbanon.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu félags- og húsnæðismálaráherra sem er í samræmi við niðurstöður flóttamannanefndar að taka á móti sýrlensku flóttafólki frá Líbanon þar sem fjöldi flóttafólks er mikill og innviðir landsins til að aðstoða slíkan fjölda takmarkaðir.

Flóttamannanefnd lagði jafnframt til að sveitarfélögin Reykjavík, Hveragerði og Árborg verði næstu móttökusveitarfélögin.  Þar séu starfandi virkar og öflugar Rauðakrossdeildir og náið samstarf er á milli Rauðakrossdeildanna í Hveragerði og Árborg. Þá var litið til áhuga sveitarfélaganna, sem og atvinnuástands, félagsþjónustu, húsnæðis-, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika á svæðunum.

Kostnaður við móttökuna nemur um 200 milljónum króna og er gert ráð fyrir fjármagninu í fjárlögum ársins 2016.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður