Chileska baráttusöngvaskáldið Victor Jara varð táknmynd andstöðuhreyfingarinnar þar í landi árið 1973 þegar einræðisherrann Augusto Pinochet steypti hinum lýðræðislega kjörna forseta, Salvador Allende, af stóli með öllum þeim hörmungum sem það hafði í för með sér. Victor, sem fæddist árið 1932, var fylgjandi hinum umbótasinnaða Allende og var hann fyrir þá hollustu sína handtekinn, pyntaður og tekinn af lífi á þjóðarleikvanginum í Santiago. Fingur hans voru brotnir og gítarnum kastað í hann. Á meðan léku hermenn sér í rússneskri rúllettu með hann, með eina kúlu í skammbyssunni svo það gat aðeins endað á einn veg. Hörmuleg endalok fyrir mann sem hafði unnið sér það eitt til saka að syngja um ástina, kærleikann og réttlátt þjóðfélag.
Lög söngvaskáldsins rifjuð upp
Þjóðhetjan hefur verið hyllt þar í landi allar götur síðan og hljóma lög hans víða um Chile þessa dagana. Á dögunum var birt myndskeið af friðsamlegum mótmælum í Santiago af hópi fólks kyrja söngva Victors þar sem almenningur hefur enn á ný risið upp og mótmælir nú óréttlæti og misskiptingu þar í landi. Mörghundruð þúsund manns hafa síðustu vikur komið saman á götum borgarinnar til að krefjast afsagnar Sebastian Pinera, forseta Chile og eru mótmælin eru talin þau fjölmennustu í sögu landsins. Til þess að sýna andúð sína á ástandinu í þjóðfélaginu mæta þeir vopnaðir gítar og kyrja slagorð Sergio Ortega: El pueblo unido jamás será vencido sem Þórarinn Eldjárn hefur þýtt sem: Þá alþýðueining fá aldrei neinir sigrað. Saman syngja þau svo lög Victors Jara.