Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótmælendur í Chile hylla syngjandi þjóðhetju

Mynd: Youtube / Retro report

Mótmælendur í Chile hylla syngjandi þjóðhetju

06.11.2019 - 16:35

Höfundar

Fingur söngvaskáldsins og gítaleikarans Victors Jara voru brotnir um leið og gítar hans var kastað í hann með skilaboðunum: „Já, spilaðu nú.“ En þó að þaggað hafi verið í skáldinu lifir söngur hans og kyrja mótmælendur í Santiago lög hans á götum borgarinnar enn í dag.

Chileska baráttusöngvaskáldið Victor Jara varð táknmynd andstöðuhreyfingarinnar þar í landi árið 1973 þegar einræðisherrann Augusto Pinochet steypti hinum lýðræðislega kjörna forseta, Salvador Allende, af stóli með öllum þeim hörmungum sem það hafði í för með sér. Victor, sem fæddist árið 1932, var fylgjandi hinum umbótasinnaða Allende og var hann fyrir þá hollustu sína handtekinn, pyntaður og tekinn af lífi á þjóðarleikvanginum í Santiago. Fingur hans voru brotnir og gítarnum kastað í hann. Á meðan léku hermenn sér í rússneskri rúllettu með hann, með eina kúlu í skammbyssunni svo það gat aðeins endað á einn veg. Hörmuleg endalok fyrir mann sem hafði unnið sér það eitt til saka að syngja um ástina, kærleikann og réttlátt þjóðfélag. 

Lög söngvaskáldsins rifjuð upp

Þjóðhetjan hefur verið hyllt þar í landi allar götur síðan og hljóma lög hans víða um Chile þessa dagana. Á dögunum var birt myndskeið af friðsamlegum mótmælum í Santiago af hópi fólks kyrja söngva Victors þar sem almenningur hefur enn á ný risið upp og mótmælir nú óréttlæti og misskiptingu þar í landi. Mörghundruð þúsund manns hafa síðustu vikur komið saman á götum borgarinnar til að krefjast afsagnar Sebastian Pinera, forseta Chile og eru mótmælin eru talin þau fjölmennustu í sögu landsins. Til þess að sýna andúð sína á ástandinu í þjóðfélaginu mæta þeir vopnaðir gítar og kyrja slagorð Sergio Ortega: El pueblo unido jamás será vencido sem Þórarinn Eldjárn hefur þýtt sem: Þá alþýðueining fá aldrei neinir sigrað. Saman syngja þau svo lög Victors Jara.

Sannspáir eldhugar á friðarþingi

Victor Jara á sér stað í hjarta nokkurra Íslendinga. Steinunn Jóhannesdóttur leikkona og rithöfundur starfaði á vegum Samtaka hernaðarandstæðinga á áttunda áratugnum og fór meðal annars Rússlands sem eins manns sendinefnd á stórt fjölþjóðlegt friðarþing. „Ég var send til Moskvu alein og heimurinn opnaðist,“ rifjar hún upp. Á þinginu hópaðist saman fólk frá ýmsum heimshornum og þarna voru meðal annarra ungir menn frá Chile sem Steinunn kynntist. „Þeir eru mjög áberandi því á þeim brennur eldurinn heitastur á þessum tíma og þeir reyna að vekja athygli á því að það sé mjög líklegt að herinn í Chile muni taka völdin af Allende.“ Drengirnir voru ákafir og sögðu þeir ítrekað við aðra gesti þingsins: „Þið verðið að trúa þessu, þetta er að gerast.“

Verður klökk að rifja upp atburðina

Skömmu eftir að Steinunn kemur heim á valdaránið í Chile sér stað eins og drengirnir höfðu spáð fyrir um. „Ég hugsa bara, heyrðu þessi sendinefnd frá Chile sagði satt. Þeir vissu nákvæmlega hvað myndi gerast.“

Fjölda fylgjenda Allenda, listamönnum og fólki í pólitískri baráttu var safnað saman á íþróttavellinum stóra í höfuðborginni. Fólk sætti miklum pyntingum og var skotið en frægastur þeirra sem teknir voru af lífi var Victor Jara söngvaskáld. Flaug sagan um hann um heiminn með fréttamiðlum þess tíma. „Ég verð klökk að tala um þetta,“ segir Steinunn. „Síðan var hann skotinn.“

Í kjölfarið á þessum skelfilegu atburðum lögðu margir á flótta og meðal annars komu einhverjir til Íslands. Fyrr en varði voru flóttamenn frá Chile komnir inn á stofugólf hjá Steinunni og manninum hennar. Mennirnir gáfu Steinunni vínylplötu í þakklætisskyni fyrir heimboðið sem meðal annars inniheldur ræðu Salvdors Allende. „Það er ótrúlega dramatískt að hlusta á þetta,“ segir Steinunn sem á plötuna enn.

Gítarinn sterkt mótmælaafl

Þessi persónulegu kynni Steinunnar af ungu eldhugunum á ráðstefnunni í Moskvu og reynsla hennar af því að fá þessa flóttamenn heim í stofu til sín hafði gífurleg áhrif á hana. Þegar hún horfir á myndskeið frá mótmælunum sem fram hafa farið þar í landi upp á síðkastið þar sem fólk mundar gítar og kyrjar lög Victors Jara þá kemst hún við. „Gítarinn var verkfæri hans og söngröddin. Svo voru fingur hans brotnir og síðan er gítarinn í Chile ótrúlega sterkt mótmælaafl,“ segir hún og þó henni þyki stórkostlegt að sjá að lög Victors séu enn sungin þá hefur hún miklar áhyggjur af ástandinu þar. „Þetta kostaði svo mörg mannslíf á sínum tíma og maður er alltaf sorgmæddur þegar það brjótast út innanlandsátök,“ segir hún.

Arndís Björk Ásgeirsdóttir ræddi við Steinunni Jóhannesdóttur, Hólmfríði Garðarsdóttir prófessor í spænsku og spænskum bókmenntum við Háskóla Íslands og Guðmund Andra Thorsson rithöfund og alþingismann um söngvaskáldið sem ekki einu sinni dauðinn þaggaði niður í. Viðtalið við Sólveigu má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni en allan þáttinn má nálgast hér.

Tengdar fréttir

Mið- og Suður-Ameríka

Milljón mótmæltu forseta Chile

Mið- og Suður-Ameríka

Forseti Chile reynir að miðla málum

Mið- og Suður-Ameríka

Ellefu látin í óeirðum í Chile