Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mótmælendur handteknir í Sankti Pétursborg

05.08.2018 - 07:45
Mynd með færslu
Ríkistónlistarskólinn í Sankti Pétursborg. Mynd: Alex Florstein - Wikimedia Commons
Rússneska lögreglan handtók í það minnsta 25 manns sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks eftir mótmæli í miðbæ Sankti Pétursborgar. Lögregla hafði áður bannað samkomur þar.

Fólkið kom saman til að krefjast þess að hinsegin fólk njóti sömu mannréttinda og aðrir íbúar Rússlands. Það bar kröfuskilti og hélt á regnbogafánum.

Árið 2013 voru lög sett í landinu þar sem svokallaður „hinsegin áróður“ var bannaður.

Skipuleggjendur mótmælanna sögðu í kjölfar mótmælanna að hver og einn mótmælanda hafi verið á torginu á eigin vegum til að komast hjá banni á fjöldasamkomum.

Engin átök áttu sér stað milli mótmælenda og lögreglu en allir þeir sem báru kröfuskilti eða fána voru dregnir inn í lögreglubíla gegn vilja sínum að því segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Að sögn Aleksei Nazorov, eins af skipuleggjenda mótmælanna, handtók lögregla þá sem voru klæddir í hvað litríkust föt.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV