Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótmæla þrjátíu árum eftir flauelsbyltinguna

16.11.2019 - 17:48
Mynd: EPA-EFE / EPA
Hið minnsta tvö hundruð þúsund tóku þátt í mótmælum í Prag í Tékklandi í dag. Mótmælin beinast gegn forsætisráðherra landsins en eru haldin þrjátíu árum eftir að flauelsbyltingin hófst.

Afsögn forsætisráðherra Tékklands, Andrej Babis, er krafa mótmælenda. Milljarðamæringurinn Babis var ákærður í fyrra í tengslum við fjársvik vegna tveggja milljóna evra styrks frá Evrópusambandinu. Endurskoðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós hagsmunaárekstra Babis, vegna embættis hans annars vegar og viðskiptahagsmuna hins vegar. 

Forsætisráðherranum hefur verið mótmælt mjög reglulega í heimalandinu allar götur síðan. 

Hér má lesa umfjöllun um Andrej Babis úr Speglinum á Rás 2 í sumar. 

Mótmælin í dag eru hins vegar ekki síðst áhugaverð í ljósi sögunnar, því þrjátíu ár eru nú liðin frá flauelsbyltingunni svokölluðu. Þau mótmæli hófust í Bratislava að kvöldi  16.nóvember árið 1989, mótmæli sem leiddu til afnáms flokkræðs kommúnista í Tékkóslóvakíu. 

Letna Park, er líkt og þá, samkomustaður mótmælendanna. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV