Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mótmæla þjóðgarði á miðhálendinu

27.07.2019 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Drögum að tillögum um fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð er harðlega mótmælt í sumum umsögnum en frestur til að skila inn rennur út eftir rúman hálfan mánuð. Mörg sveitarfélög og orkufyrirtæki eru andsnúin tillögunum. Samorka telur að með þjóðgarði verði orkuvinnsla og - flutningur bannaður á stórum hluta landsins og sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekkert samráð hafa verið um hvort yfirleitt ætti að stofna þjóðgarð.   

Inni á samráðsgátt stjórnvalda má sjá drög að tillögum nefndarinnar, sem skipuð var í fyrravor í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í henni sitja fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi og fullrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Upplýsingar um nefndina, fundargerðir og kynningarefni má sjá á vef Stjórnarráðsins. Lagt er til að innan þjóðgarðsins verði þjóðlendur og svæði sem þegar hafa verið friðlýst innan marka miðhálendisins. Þjóðgarðurinn yrði stór hluti landsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Þótt Samband íslenskra sveitarfélaga geri ekki sérstakar athugasemdir í umsögn sinni þá gera mörg sveitarfélög það og þá sérstaklega þau sem eiga mörk sín innan fyrirhugaðs þjóðgarðs.

„Svona í grunninn þá hefur sveitarstjórnin verið að benda á það að það hafi skort á samráð um það hvort það eigi yfir höfuð að stofna þjóðgarð á miðhálendinu,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Hún segir að nefndin hafi einungis það hlutverk að gera tillögur en ekki að meta kosti og galla þess að stofna þjóðgarð yfirleitt. Sú vinna hafi því aldrei farið fram að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar. Þá sé skipulagsvald sveitarfélaga skert. 

„Það eru stór svæði inni á hálendinu, sem eru innan Bláskógabyggðar, og bændur og íbúar hafa lagt fram gríðarlega mikla vinnu við uppgræðslu á landinu, til dæmis við að merkja reiðleiðir og stýra svona umferð þannig að það sé ekki verið að fara inn á viðkvæmustu svæði og þess háttar. Menn hafa aðeins áhyggjur af því ef það verður einhver miðstýrð stofnun, einhver ríkisstofnun, sem sér um þetta, að þá fjari nú svolítið undan allri þessari sjálfboðavinnu, sem menn hafa verið að vinna.“

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, segir í umsögn sinni að með engu móti sé hægt að fallast á tillöguna og benda samtökin á að öll ný orkuvinnsla og orkuflutningur á um það bili helmingi Íslands verði bönnuð. Þar með séu lög um verndar- og orkunýtingaráætlun að engu gerð. 

Landsvirkjun telur nauðsynlegt að öll virkjunarsvæði Landsvirkjunar verði utan þjóðgarðsins. Hún bendir á að nýting orkulinda á hálendinu hafi gríðarlega þjóðhagslega þýðingu því sú endurnýjanlega orka, sem þar sé framleidd, sé undirstaða atvinnulífs og nútíma lífsgæða þjóðarinnar. 

Landvernd og fleiri fagna tillögum um þjóðgarðinn í umsögnum sínum. Frestur til að skila inn umsögnum í núverandi ferli í samráðsgáttinni rennur út 13. ágúst. Þetta er þriðja samráðferlið um sama mál. Fyrri tillögur og umsagnir má sjá hér og hér. Kynningarfundir um tillögurnar verða haldnir í Logalandi í Borgarfirði 12. ágúst og í Stórutjarnarskóla í Þingeyjarsveit 26. ágúst. Áætlað er að nefndin skili af sér til umhverfis- og auðlindaráðherra í september.