Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mótmæla skertri vetrarþjónustu á Víkurskarði

24.01.2020 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur mótmælt skertri vetrarþjónustu á Víkurskarði. Í byrjum vetrar var þjónustan þar lækkuð um einn flokk. Með þessu segir sveitarstjórn verið að þvinga íbúa til að keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng þar sem veggjald er innheimt.

Samkvæmt þessum breytingum verður þjónusta á veginum yfir skarðið virka daga frá hálf sjö að morgni til átta að kvöldi „í mildu veðri þar sem ekki er mikil ofankoma og vindur,“ eins og segir í lýsingu Vegagerðarinnar.

Opnun á Víkurskarði nýtur ekki forgangs

Þá skal hætta mokstri þegar veður versnar og færð fer að spillast og ekki opna aftur fyrr en skilyrðin batna. „Opnun á Víkurskarði nýtur ekki forgangs, þannig að ef mikið álag er í snjómokstri þá ganga aðrar leiðir fyrir og opnun fer fram um leið og allar aðalleiðir eru orðnar færar,“ segir jafnframt í lýsingu fyrir vetrarjónustu á Víkurskarði.

Treystu því að þjónustan yrði ekki skert

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir harðlega þessari „þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar“ eins og stendur í bókum sveitarstjórnarinnar. Þar segir að Vaðlaheiðargöng séu sannarlega mikil samgöngubót, en því hafi ítrekað verið haldið fram að þjónusta í Víkurskarði yrði ekki skert með tilkomu ganganna.

Íbúarnir þvingaðir í gjaldtöku í Vaðlaheiðargöngum

„Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin við skerðingu á þjónustu í Víkurskarði,“ segir sveitarstjórn Skútustaðahrepps. „Með þjónustuskerðingunni er Vegagerðin að þvinga íbúa til þess að fara í gjaldtöku í göngunum og er þetta eina svæðið á landinu sem býr við slíkar aðstæður. Þessu er mótmælt harðlega og farið fram á að þjónusta í Víkurskarði verði færð aftur í þjónustuflokk 2."

Öryggið best tryggt með því að aka um göngin

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir ekki litið svo á að þarna sé verið að skerða þjónustu. Rétt sé að Víkurskarð er nú í þjónustuflokki 3 en var áður í þjónustuflokki 2, en áætluð vetrardagsumferð á þeirri leið sé 125 bílar á sólarhring. „Vegurinn um Vaðlaheiðargöng tók við Víkurskarði sem aðalleið og fékk sama þjónustuflokk og Víkurskarð hafði áður. Öryggi vegfarenda er betur tryggt með því að aka Hringveginn eftir nýju leiðinni - þjónusta við íbúa er því alls ekki skert,“ segir G. Pétur.