Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mossack: Bandarísk skattaskjól blómstra nú

21.04.2017 - 05:33
A marquee of the Arango Orillac Building lists the Mossack Fonseca law firm, in Panama City, Monday, April 4, 2016. Panama's president says his government will cooperate "vigorously" with any judicial investigation arising from the leak of
 Mynd: AP
Jürgen Mossack, annar stofnenda og nafngjafa panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, segir að í eftirleik Panamaskjala-hneykslisins blómstri skattaskjól í Bandaríkjunum sem aldrei fyrr, á sama tíma og mjög hefur dregið úr slíkri starfsemi í Panama. Þetta kemur fram í bréfi frá Mossack, sem AFP-fréttastofan hefur undir höndum.

Þar segir hann að fyrirtækjum sem veita þá þjónustu sem Mossack Fonseca veitti hafi fækkað um nær þriðjung í Panama og öðrum vel þekktum skattaskjólum síðan Panamaskjölunum, sem öll komu úr skjalasafni Mossack Fonseca, var lekið og innihald þeirra afhjúpað fyrir rúmu ári.

Á móti kemur, segir Mossack, að í lögsagnarumdæmum á borð við Delaware, Nevada og fleiri ríki og svæði í Bandaríkjunum, þar sem nánast engin krafa er gerð um gegnsæi og „hæfilega kostgæfni" eins og það er kallað, blómstri slík fyrirtæki.

„Á sama tíma og Panama rembist við að vera hvítari en allt sem hvítt er, eru aðrir að græða," segir Mossack í bréfi sínu, sem hann skrifaði í fangelsi þann 10. apríl. Þar dúsa þeir Ramon Fonseca enn, ekki þó vegna þjónustu lögmannsstofu þeirra við meinta skattsvikara heldur vegna meintrar aðildar þeirra að víðfeðmu mútumáli, sem teygir anga sína til fjölda landa Mið- og Suður-Ameríku og er kennt við bílaþvott. 

Lekinn á Panamaskjölunum og víðtækar afhjúpanirnar sem honum fylgdu urðu til þess að stjórnvöld víða um heim gripu til hertra aðgerða gegn skattsvikum og undanskotum hvers konar. Fram að þeim tíma var Panama raunar eina, umsvifamikla fjármálaríkið sem enn leyfði algjöra bankaleynd og skiptist ekki á neinum fjármálaupplýsingum við yfirvöld annarra ríkja. Eftir að allt fór upp í loft var löggjöfinni þar umbylt, gegnsæi aukið til muna og Panama gekk til liðs við fjölþjóðlega baráttuna gegn skattaskjólum, þótt skattaundanskot séu ekki glæpur þar í landi.

Lögmannsstofur í Panama hafa verið skyldaðar til að ástunda „hæfilega kostgæfni" í störfum sínum, sem þýðir að þeim er skylt að vita hverjir hinir raunverulegu viðskiptavinir þeirra eru hverju sinni og hverjir það eru í raun, sem hagnast á fyrirtækjunum sem þau sjá um að stofna fyrir þá. Í fyrrnefndum lögsagnarumdæmum í Bandaríkjunum sé gagnsæið hins vegar ekkert, segir Mossack, og engin krafa gerð um slíkt. Því leiti nú æ fleiri þangað, sem áður hefðu sótt sömu þjónustu til Panama. 

Í frétt AFP segir að 27 prósenta samdráttur hafi orðið í stofnun erlendra aflandsfélaga í Panama árið 2016 miðað við árið áður. Enginn hefur verið handtekinn þar í landi vegna Panamaskjalaskandalsins, þar sem skattaundanskot eru ekki ólögleg þar, sem fyrr segir. Yfirsaksóknari Panama, Kenia Porcell, segir að embætti hennar vinni engu að síður með systurstofnunum sínum í Evrópu, sem séu að rannsaka skattsvik sem afhjúpuð voru í Panamaskjölunum.