Mörg mál til meðferðar sem gætu endað með sektum

10.03.2020 - 22:29
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Persónuvernd beitti í fyrsta skipti í dag sektum. SÁÁ og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti voru þurfa samanlagt að greiða 4,3 milljónir fyrir að hafa brotið gegn persónuverndarlögum. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir fleiri mál í skoðun sem gæti verið lokið með ákvörðun um að sekta.

Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann gerðust sek um öryggisbrest haustið 2018 þegar starfsmaður sem sagt hafði verið upp störfum fékk í hendur sjúkragögn frá meðferðarstöðinni Vík á Kjalarnesi. Hann geymdi gögnin um tíma í bílskúrnum. Í gögnunum var að finna upplýsingar með nöfnum þrjú þúsund sjúklinga og sjúkraskrárupplýsingar um rúmlega tvö hundruð og fimmtíu sjúklinga. Samtökin þurfa því að greiða þriggja milljóna króna sekt.

Þá varð öryggisbrestur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í ágúst í fyrra þegar kennari sendi hátt í sextíu nýnemum tölvupóst og lét fylgja með upplýsingar um viðtöl sem höfðu verið tekin við umsjónarnemendur frá fyrri önn og viðkvæmar persónuupplýsingar um þá. Skólanum er gert að greiða eina komma þrjár milljónir króna í sekt.

Með nýjum persónuverndarlögum sem tóku gildi fyrir tæpum tveimur árum fékk Persónuvernd heimild til að sekta. Í dag var heimildinni beitt í fyrsta sinn.

„Já, nú er komið að því að svo er og sumir spyrja: af hverju ekki fyrr en núna og hvers vegna. Það má segja að aðalástæðan er sú að við höfum lengi verið hér verið að glíma við mikinn málahala og við erum að vinna okkur í gegnum eldri mál,“ segir Helga.

Ekki megi sekta fyrir brot sem framin voru áður en lögin tóku gildi. Hæst má leggja á fjögurra milljarða sekt.

Eruð þið með mörg mál til meðferðar sem gæti lokið með sektarákvörðun?

„Stutta svarið hér myndi vera já,“ segir Helga.

Persónuvernd sinnir bæði kvörtunum og hefur frumkvæði að athugun.

„Þannig að það má gefa sér að það gæti víða verið pottur brotinn á Íslandi ennþá í dag,“ segir Helga. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi