
Mörg laus störf á Drangsnesi
Sex störf eru laus á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi sem má teljast heldur mikið fyrir sextíu manna þorp, segir Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananesshrepps: „Eins og staðan er núna þá vantar okkur bæði í grunnskólann, leikskólann og svo í aðalatvinnuveginn hér sem er frystihúsið, beitningu og afleidd störf.“ Til að leysa manneklu leikskólans þá hafa foreldrar hlaupið undir bagga. „Þá skiptast foreldrar á að vera aukastarfsfólk dag og dag. Það var svosem almenn ánægja með það en það er ekki framtíðarlausn og núna þegar aðalveiðitímabil okkar á svæðinu, grásleppuveiðitímabilið er að hefjast, þá er kannski ekki eins auðleyst að manna með foreldrum,“ segir Finnur.
Víða húsnæðisskortur
RÚV sagði frá því nýlega hvernig húsnæðisskortur vegna gistiheimila á Höfn hefur staðið í vegi fyrir því að aðkomufólk taki störf í bænum. Á Drangsnesi er einnig húsnæðisskortur en Finnur segir að hann stafi af lágu fasteignaverði sem geri húsnæði ákjósanlegt sem sumarhús: „Fólkið sækir svolítið í svæðið sem er náttúrlega gott. En gerir það að verkum að það er ekki nægt húsnæði fyrir heilsársbúsetu.“ Sveitarfélagið byggði nýlega parhús til að mæta eftirspurn og Finnur er bjartsýnn á að málin leysist í samvinnu við húseigendur á staðnum.